139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[20:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það eina sem hæstv. forsætisráðherra hefur fram að færa eru endalausar öfugmælavísur og það órímaðar. Að halda því fram að það sem þessi ríkisstjórn sækist eftir sé samvinna og samstarf allra, hversu fráleitur getur málflutningur hæstv. forsætisráðherra orðið? Þessi ríkisstjórn leitar uppi hvert einasta mál sem er til þess fallið að kljúfa þjóðina.

Hvernig var þetta í byrjun árs 2009? Þá var gerð tilraun vegna þess að framsóknarmenn trúðu því að við þær aðstæður sem þá voru ríkjandi og eru að miklu leyti ríkjandi enn hlytu allir að vinna saman að sameiginlegum og augljósum markmiðum. Það mundi ekki skipta máli hver færi með ráðuneyti vegna þess að allir hlytu að hafa nokkuð sameiginlega sýn á hlutina. En hver varð raunin? Ríkisstjórnin sveik öll þau loforð sem voru gefin fyrir myndun minnihlutastjórnarinnar, sveik þau mjög illilega, notaði þann tíma sem hún náði í til að undirbúa kosningar og grafa undan öllum öðrum. Og þetta sama fólk kemur svo hingað núna og segir að það sé að kalla eftir samstöðu og samstarfi og spyr: Hvar eru tillögurnar?

Það var ekki verið að spyrja út í tillögur framsóknarmanna þegar þær voru lagðar fram í byrjun árs 2009 eða þær tillögur sem við höfum lagt fram trekk í trekk síðan þá. Ef ríkisstjórnin hefði svo mikið sem litið á þær tillögur, ég tala ekki um ef þeim hefði verið hrint að einhverju leyti í framkvæmd, væri staða mála allt önnur og miklu betri. En það var ekki hægt vegna þess að það skipti ekki máli hvað kom fram í tillögunum eða út á hvað þær gengu, það skipti eingöngu máli hvaðan þær komu.

Þannig hefur umræða ríkisstjórnarinnar verið um þá tillögu sem liggur fyrir í dag. Ekki er verið að ræða um tillöguna sem slíka, ekki svo mikið, miklu meira hvaðan tillagan er komin. Það má hafa ýmsar skoðanir á því og menn geta rætt það marga daga fram í tímann. En hér ættum við að einbeita okkur að því að ræða kosti og galla tillögunnar sem slíkrar og tillagan um það að Alþingi lýsi yfir vantrausti á þessa ríkisstjórn er svo augljós að það hefði í raun ekki þurft alla þessa umræðu sem við höfum farið í gegnum í dag því að sú umræða er búin að eiga sér stað undanfarin tvö ár. Það blasir við öllum sem fylgst hafa með íslenskum stjórnmálum undanfarin tvö ár að þessi ríkisstjórn er gersamlega vonlaus.

Hún komst að við erfiðar aðstæður en að mörgu leyti hafa aðstæður á Íslandi þó verið þess eðlis að hér hefur verið kjörlendi fyrir fjárfestingu. Gjaldmiðillinn var mjög lágt skráður. Það var mikið af hæfu vinnuafli á atvinnuleysisskrá og aðsókn í það að fjárfesta og byggja upp í atvinnulífinu á Íslandi hefur reyndar verið býsna mikil. Það hefur beinlínis þurft að halda fjárfestingu frá og þar hefur ríkisstjórninni heldur betur tekist vel til enda notað til þess öll brögðin í bókinni, nánast eins og hún hefði fengið ráðgjöf í því hvernig halda megi niðri fjárfestingu á krepputímum. Þessi ríkisstjórn gæti ekki rekið Bæjarins bestu pylsur í plús, hvað þá íslenska ríkið.

Frú forseti. Það er löngu orðið tímabært að ríkisstjórnin fari frá. Það er löngu orðið tímabært að rjúfa kyrrstöðuna, stöðva landflóttann frá landinu og snúa dæminu við. Það væri hægt að gera það hratt og vel ef fylgt væri stefnu sem hvetur til uppbyggingar í stað þess að innleiða endalausa neikvæða hvata. Tvö ár hafa farið til spillis. Við skulum ekki glata næstu tveimur árum líka.