139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

fjárframlög til heilbrigðisþjónustu.

[10:59]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Í kjölfarið á vantrauststillögunni og umræðunni í gær er ljóst að núverandi ríkisstjórn situr áfram og þess vegna þurfum að tala við hana.

Í sambandi við eftirfylgni fjárlaga síðasta árs vegna niðurskurðar á heilbrigðismálum hefði ég áhuga á að heyra hvað ráðherrann er að gera í þeim málum og eins hvernig undirbúningurinn að fjárlögum vegna 2012 er þar sem þar kom fram að um ¼ af niðurskurðinum var frestað frá 2011 til 2012. Það er mikilvægt að það komi fram hvar sú vinna er stödd.

Hluti af þeim aðgerðum sem gerðar voru byggðist á því að færa sjúklinga á milli héraða, rúnta með þá til Reykjavíkur og hér á milli húsa í stað þess að þeir gætu legið heima hjá sér í heimabyggð og fengið umönnun þar. Það hefur þýtt það að sjúkraflutningar hafa snaraukist en fjármagn ekki fylgt með. Þannig heyrðum við þingmenn Suðurkjördæmis sagt frá því í gær á fundi með Heilbrigðisstofnun Suðurlands að stór hluti af þeim sparnaði sem hefði átt að verða vegna flutninga á verkefnum hefði tapast á Hellisheiði vegna sjúkraflutninga.

Þá var staðan einnig sú að Brunavarnir Suðurnesja hafa nú verið samningslausar í sex vikur, voru með bráðabirgðasamning sem rann út 1. mars. Sú staða er grafalvarleg. Ef ráðherra bregst einfaldlega ekki skjótt við og tekur til sinna ráða verður um 50% af þeim starfsmönnum sem þar starfa sagt upp 1. maí. Er því á bætandi? Voru það skilaboðin sem komu í gær frá norrænu velferðarstjórninni um að flestallt væri í góðu lagi en það sem ekki væri í góðu lagi væri í það minnsta á góðu róli? Ég held að nú sé lag fyrir hæstv. velferðarráðherra að koma hingað upp og segja okkur að það sé fylgst náið með því hvernig gangi að framfylgja þeim ætluðu fjárlögum og sparnaði sem kom fram vegna 2011 (Forseti hringir.) og það séu lagðar til grundvallar skynsamlegar áætlanir vegna 2012 en að menn láti ekki svona slys henda, (Forseti hringir.) að það sé bætt við vandræðin og (Forseti hringir.) atvinnuleysisskrána á Suðurnesjum.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmann til að virða tímamörk.)