139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[11:17]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er einstaklega ánægjulegt að hér sé verið að ljúka 2. umr. um þetta mál um verndar- og orkunýtingaráætlun. Hér er verið að leggja grunn að heildstæðri löggjöf um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, sjávarfalla og vindorku. Það er ánægjulegt að hér er verið að marka, í stefnumótun til lengri tíma, og leggja grundvöll að sátt um hvar eigi að sækja orkuna og hvaða svæði eigi að vernda frá sjónarmiðum náttúruverndar og ferðamennsku.

Það er líka ánægjulegt að sátt náðist um málið á vettvangi iðnaðarnefndar og þar vil ég ekki bara þakka formanni nefndarinnar heldur ekki síður fulltrúum stjórnarandstöðu í nefndinni sem tóku mjög málefnalega afstöðu til þessa ánægjulega máls. (Gripið fram í.)