139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[11:39]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir að það er gott að góð samstaða komi í veg fyrir þá tvísköttun sem hér er um að ræða. Bara svo fólk sé meðvitað um það þá snýst þetta ekki bara um bætur fyrir fullorðið fólk heldur líka börn.

Við Íslendingar erum vantryggð. Það væri æskilegt ef t.d. stéttarfélög og aðrir slíkir færu í auknum mæli að huga að þessum málum. Ég held hins vegar að það sé alveg rétt hjá hv. þm. Lilju Mósesdóttur að við höfum áhyggjur af tvöföldu heilbrigðiskerfi, en það er þá fyrst og fremst út af áherslum núverandi ríkisstjórnar í heilbrigðismálum. Við ræðum það ekki hér.

Síðan er ég afskaplega ánægður með hvernig hv. þm. Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar, lýsti núverandi tekjuskattskerfi en hann nefndi að skattar væru himinháir. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. [Hlátur í þingsal.]