139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[11:43]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég styð það heils hugar að þeir sem eiga kost á því að kaupa sér sjúkdómatryggingar eða líftryggingar fái þær skattfrjálsar. Ég verð hins vegar að nefna það í þessari umræðu að ég tel það vera stórt verkefni þessa þings að fara yfir með hvaða hætti eigi að mæta því fólki sem ekki hefur þennan kost ef eitthvað kemur upp á. Það eru fjölmargir Íslendingar sem annaðhvort vegna fjölskyldusögu eða eigin sögu, þó að þeir hafi náð heilsu að nýju, fá ekki þessar tryggingar. Það þýðir að fjölskyldumeðlimir þeirra og þeir sjálfir sitja ekki við sama borð og aðrir sem eiga kost á þessum tryggingum.

Virðulegi forseti. Ég skora á þingið í framhaldi af þessari atkvæðagreiðslu að taka á þessum þætti mála þannig að allir Íslendingar sitji við sama borð þegar slíkar uppákomur eiga sér stað í lífi þeirra. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)