139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

neytendalán.

724. mál
[13:37]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vildi bara rétt koma hér upp til þess að þakka hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir að leggja fram þetta frumvarp. Ég tel ákaflega mikilvægt að setja lagaramma utan um svokölluð smálán sem eru veitt fólki án neins mats á greiðslugetu. Það er ansi hár kostnaður af lántöku sem þessari og þetta hvetur til þess að fólk sem oft og tíðum hefur ekki mjög góða fjármálaþekkingu gangist undir skuldbindingar sem það gerir sér ekki grein fyrir kostnaðinum við. Ég tel mjög mikilvægt að löggjafinn grípi inn í til að vernda neytendur gegn ágengni þeirra sem vilja veita lán með óeðlilega háum kostnaði.