139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

vatnalög og rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

720. mál
[15:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum enn einu sinni hvað megi leigja auðlindir þjóðarinnar til langs tíma. Ég tala af ásettu ráði um auðlindir þjóðarinnar því að umræðan snýst um þau hugtök þó að hvort tveggja sé óskilgreint, auðlind og þjóð.

Á mannsævinni skipta 40–50 ár verulega miklu máli fyrir hvern mann. Maður sem er tvítugur er að hefja sitt starf og jafnvel síðar ef hann er langskólagenginn, þrítugur getur hann horft fram á að vinna í kannski 40–50 ár og þá er það mjög langur tími í hans augum. Út frá sjónarhóli fyrirtækja er þessi tími yfirleitt miklu lengri vegna þess að fyrirtæki lifa að jafnaði ekkert voðalega lengi. Reyndar kom fram áðan hjá hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni að fyrirtæki gætu lifað í 600 ár, en ég held að meðalaldur þeirra sé miklu styttri. Við kynntumst því í hruninu að sum fyrirtæki lifðu ekki nema daginn. Þjóðin lifir náttúrlega miklu lengur. Hún er búin að vera á Íslandi í þúsund ár. Ég lít svo á að fyrir þjóð séu 65 ár mjög stuttur tími og alveg nægilega stuttur til að endurnýjað sé á þeim tíma. Ég var nefnilega dálítið hrifinn af þessum 65 árum á sínum tíma þegar málið var rætt. Sums staðar er talað um 99 ár eins og þegar Bretar leigðu Hong Kong, en ég hugsa að 65 ár sé skynsamlegur tími eða allt að því. Af hverju? Ef við mundum hafa þennan tíma eitt ár þá yrði ekkert virkjað, ekki neitt, af því að það mundi ekki nokkur maður setja í gang virkjun ef hann ætti að skila auðlindinni eftir eitt ár; 20 ár, kannski; 30 ár, líklegar. Þegar komið er upp í 65 ár held ég að flestir væru farnir að horfa fram hjá mörkunum vegna þess að t.d. 2% raunvextir í 60 ár þrefalda upphæðina rúmlega. Þannig að síðustu árin skipta minna og minna máli í ljósi þess að við vinnum yfirleitt með jákvæða raunvexti í hagkerfinu.

Spurningin er hvar við getum sett mörkin þannig að menn, einstaklingar eða fyrirtæki sjái sér hag í að virkja og borga það mikið fyrir það að þjóðin græði á því. Þá er komið inn á hverjir semja fyrir hönd þjóðarinnar. Það er væntanlega ríkið. Ég lagði til að allar þessar auðlindir yrðu settar undir fjármálaráðherra því að þar er kannski mest þekking og þörf á peningum. Hann mundi sennilega semja skynsamlegast af öllum ráðherrum, hugsa ég, vegna þekkingar í ráðuneytinu, þarfar á peningum og vegna þess að hann er óháður öðrum hagsmunum sem tengjast t.d. iðnaði. Ég held að hv. nefnd ætti að skoða að flytja forræðið yfir til fjármálaráðherra. Mér skildist áðan að það væri á hendi ýmissa ráðuneyta. Maður skilur ekki alveg hvað sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur með þetta að gera. Það væri kannski ágætt að hv. nefnd fengi lýsingu á því eða það yrði upplýst í umræðunni.

Hvers vegna er verið að leggja fram þessar breytingar? Það er vegna þess að þetta er í umræðunni og menn setja alltaf samasemmerki milli þjóðar og þess að einhverjir ljótir menn séu að stela af þjóðinni. Umræðan er þannig vegna þess að eina dæmið sem er til er sveitarfélag sem veitti 65 ár og er þá spurning um ábyrgð sveitarstjórnar ef hún hefur samið af sér fyrir hönd íbúa þess. Það er nokkuð sem menn þurfa að gera upp í viðkomandi sveitarfélagi.

Ég hygg að menn ættu að skoða í þessu samhengi að setja ákvarðanir í þjóðaratkvæðagreiðslu eða í atkvæðagreiðslu innan sveitarfélags þegar gerðir eru slíkir samningar þannig að sveitarfélagið komi að þeim eða þjóðin — það liggur í orðinu þjóðaratkvæðagreiðsla að þjóðin komi að slíkum samningum — sérstaklega ef þeir eru mjög veigamiklir og víðtækir eða skoði alla vega hvernig formið eigi að vera á svona samningum.

Ég benti á það áðan að þegar svona lög eru komin væri hægt að skipta t.d. Landsvirkjun upp í þrjá parta — ég hef lagt það til áður, frú forseti — þ.e. Austurlandsvirkjun sem væri Kárahnjúkavirkjun og síðan Sogsvirkjanirnar og svo rest. Austurlandsvirkjun mundi að sjálfsögðu hafa höfuðstöðvar á Egilsstöðum, Sogsvirkjanir mundu hafa höfuðstöðvar á Hellu eða Hvolsvelli og rest gæti þess vegna haft höfuðstöðvar á Selfossi. Síðan yrði þessum fyrirtækjum leigður réttur til t.d. 40 ára og svo mætti selja fyrirtækin. Þá væri áhættan við að standa í því að framleiða orku farin úr höndum ríkisins. Orkuframleiðsla ber í sér mikla áhættu því að orkuverð getur hrunið þar sem það er stundum tengt álverði og álverðið getur hrunið og ýmislegt annað getur gerst sem er áhætta í. Menn gætu t.d. fundið upp nýjar aðferðir við að bræða ál, ekki með rafgreiningu heldur með öðrum aðferðum sem ég sé að sjálfsögðu ekki fyrir, þá yrði notkun raforku til álgreiningar óþörf. Það gæti gerst mjög skyndilega. Þá yrði áhætta fyrir þjóðina gífurleg af að hafa byggt upp þessar tvær megineignir sínar, Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur, fyrir utan áhættuna af lánveitingum og lántökum sem við höfum því miður kynnst.

Hér hefur að sjálfsögðu nokkuð verið rætt um sjávarútveginn því að þar er svo litið á að eftir að sett var takmörkun á veiðar myndaðist auðlind vegna þess að í takmörkuninni felst verðmæti fyrir þá sem komast inn fyrir. Menn hafa margoft rætt um hvernig eigi að haga eignarhaldi á þeirri auðlind. Ég hef í tvígang lagt til á Alþingi að skoðað verði að dreifa því yfir á alla þjóðina þannig að hver þjóðfélagsþegn fengi að veiða tvö tonn af þorski eða þorskígildi. Ég hugsa að það sé miklu skynsamlegri leið fyrir útgerðina og þjóðarbúið en að láta þingmenn og ráðherra ráðstafa þessu eins og felst í afskriftaleiðinni sem Samfylkingin lagði til, sem ég tel vera mjög slæma og ekkert annað en ríkisvæðingu á kvótanum. Ég hugsa að ef þessu yrði dreift á þjóðina mundi sko hún Jóna ekki selja kvótann sinn nema á því verði sem best byðist og kvótinn mundi leita til þeirra útgerða sem gætu veitt hann ódýrast ef markaðurinn væri almennur.

Ég hef lýst því áður að þetta frumvarp feli í sér vantraust. Í því er nákvæmlega talið upp hvað eigi að gera í samningum eins og þeir menn sem gera þá hafi ekkert vit á þeim og gæti ekki hagsmuna þjóðarinnar. Að síðustu vildi ég nefna það sem ég nefndi áðan, að það mætti setja samningana eða form þeirra í þjóðaratkvæðagreiðslu eða í sveitarfélagsatkvæðagreiðslu þannig að borgarar eða íbúar í viðkomandi sveitarfélagi mundu taka afstöðu til þess hvað þeir mundu vilja leigja auðlindina háu verði og samþykkja samninginn eða hafna honum í þeirri von að geta fengið betri samning.

Á bak við þetta allt er hugmyndin um auðlind. Ég held að það sé orðið brýnt að menn skilgreini hvað auðlind er. Ég vil benda á að fallvötnin okkar voru til bölvunar í árhundruð. Þau hindruðu samskipti fólks, samgöngur og annað slíkt áður en ár voru brúaðar og þau urðu ekki að auðlind fyrr en mannauðurinn kom að. Sama er með sjávarútveginn. Sjávarútvegurinn kostaði hér mannslíf í ótrúlegu magni — sorgleg saga sjávarútvegs í gegnum aldirnar á Íslandi með miklum mannskaða. Það er ekki fyrr en tæknin, þ.e. mannauðurinn, kemur að að skipin verða svo örugg að árið 2008 fórst enginn sjómaður á sjó. Það finnst mér að menn ættu að halda upp á. Það hefur því miður ekki gerst síðan en að því ættu menn að stefna. Hvorug þessara auðlinda var auðlind fyrir 100 eða 200 árum. Maður sér náttúrlega ekki fyrir hvað verður auðlind í framtíðinni. Mér segir svo hugur að það verði tíðnisvið rafsegulbylgna.