139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

grunnskólar.

747. mál
[15:59]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, með síðari breytingum. Meginmarkmið þessarar lagasetningar er að styrkja enn frekar réttindi nemenda og gefa mennta- og menningarmálaráðuneyti skýrari lagastoð til að útfæra tiltekin atriði í reglugerðum, til að mynda hvað varðar skólagöngu fósturbarna, skólareglur, skólabrag, aðgerðir gegn einelti og ýmis atriði sem snúa að starfsemi grunnskóla sem reknir eru af öðrum aðilum en sveitarfélögum.

Ekki er um umfangsmiklar lagabreytingar að ræða en þær eru hins vegar flestar þýðingarmiklar til að tryggja réttindi nemenda til náms enn frekar og velferðar í skólum og jafnframt að gefa sveitarfélögum ákveðið svigrúm til útfærslu einstakra atriða laganna.

Að undanförnu hefur af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytisins verið í skoðun þörf á breytingum á grunnskólalögum með tilliti til þeirrar reynslu sem fengin er af nýju lögunum sem tóku gildi sumarið 2008. Við þá skoðun hefur verið litið til þess hvernig gengið hefur að innleiða lögin, framkvæmdar og til þeirra álitamála sem hafa komið upp í tengslum við innleiðingu laganna, setningu reglugerða við lögin og gerð aðalnámskrár grunnskóla og samfélagsþróun undanfarinna ára. Þar horfum við m.a. til niðurstaðna úr könnunum ráðuneytisins á innleiðingu laganna og einnig horfum við til tillagna sem komið hafa frá nokkrum starfshópum, til að mynda starfshópi á vegum nokkurra ráðuneyta sem skilaði tillögum sumarið 2010 um aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum. Í tengslum við þessa umræðu vil ég líka nefna að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur ítrekað óskað eftir tímabundinni heimild til að fækka vikulegum kennslustundum, eins og þingheimi er væntanlega kunnugt um, og hafa óskað eftir lagabreytingum í því skyni. Ég vildi ekki leggja það til og taldi í raun ekki rétt að fara fram með skerðingu á kennslutíma nemenda í ljósi samanburðar á kennslutíma nemenda í grunnskólum hér við önnur lönd og í ljósi þess að staða sveitarfélaga er mjög mismunandi og ljóst var að ekki var einhugur meðal sveitarfélaga um hvort þau hygðust nýta sér slíka heimild eða ekki, sem vakti síðan spurningar um jafnræði nemenda og annað slíkt. Ekki náðist því sátt á milli þeirrar sem hér stendur og sveitarfélaganna um þær tillögur. Hins vegar er rétt að nefna að þetta kom að sjálfsögðu fram í þeirri vinnu sem fór fram í kringum þetta frumvarp.

Meginbreytingarnar sem frumvarpið felur í sér frá núgildandi grunnskólalögum eru eftirfarandi:

Breytt er ákvæðum í lögunum um val nemenda í námi á unglingastigi þar sem valið fer úr þriðjungi námstímans í 8.–10. bekk í allt að fimmtung námstímans. Jafnframt hafa þó skólar heimild til að hafa valið mismunandi eftir árgöngum á unglingastigi og að binda valið að hluta í bóklegt nám og nám í list- og verkgreinum. Um þetta er það að segja að við höfum fengið talsvert af ábendingum frá sveitarfélögum sem telja sig ekki hafa bolmagn til að bjóða upp á nægilega fjölbreytt val til að uppfylla lagaákvæði. Enn fremur kom það fram í mikilli umræðu sem fór fram um OECD-könnun þar sem var m.a. verið að fara yfir kostnað grunnskóla, sem reyndar var talsvert í umræðu hér í fjölmiðlum, en þá var líka m.a. bent á að val hér væri með því mesta sem gerðist og því væri í raun ástæða til að skoða það sérstaklega hvernig það væri nýtt og hvort hugsanlega væri eðlilegra að minnka þetta val og binda það að einhverju leyti. Við tökum mark á þessum ábendingum og teljum að þar skapist þá líka ákveðið svigrúm því að á sama tíma og þessi umræða hefur farið fram hefur að sjálfsögðu líka farið fram mikil umræða um aðalnámskrár og margar óskir komið fram bæði á síðasta menntaþingi sem haldið var í fyrra og á þjóðfundi um menntamál um að fá aukna áherslu á ýmis málefni inn í námskrá. Ég get nefnt þar sérstaklega áhersluna á siðfræðikennslu, sem m.a. er þingsályktunartillaga um til umfjöllunar hjá hv. menntamálanefnd. Þessar óskir hafa komið fram ítrekað sérstaklega frá þjóðfundi um menntamál en líka ýmsar óskir um að aukin verði áhersla á fjármálalæsi, neytendafræðslu og ýmislegt sem því tengist. Það er því ljóst að mörg spjót standa á skólunum um að uppfylla þessar kröfur.

Í öðru lagi vil ég nefna að sett er inn ákvæði að nýju um skólasöfn í grunnskólum í lagagreinina um skólahúsnæði. Sérstök lagaákvæði þess efnis voru felld brott með lögunum 2008. En árið 2010 gerði Alþingi að minni tillögu breytingar á framhaldsskólalögum þar sem skólabókasöfnin voru aftur gerð hluti af lögum. Ég held að enginn í þessum sal efist í raun og veru um mikilvægi bókasafna fyrir skólastarfið, ekki síst núna þegar lögð er aukin áhersla á læsi, upplýsingalæsi, miðlalæsi og lestur. Ég held líka að þó að nýjasta PISA-könnunin sýni að við séum á uppleið þegar kemur að lestri sé full ástæða til að halda þar áfram og slaka hvergi á og þar munu bókasöfnin gegna lykilhlutverki.

Gerðar eru breytingar á lagaumhverfi sjálfstætt rekinna grunnskóla sem eru þær að sett eru ákvæði í lögin þess efnis að sveitarfélög skuli gera þjónustusamninga við slíka skóla til allt að sjö ára í senn með endurskoðunarákvæðum og ítarlegri ákvæði eru sett um inntak reglugerðar um framkvæmdina.

Í fjórða lagi er bætt við ákvæðum um skyldu skóla til að móta heildstæða stefnu til að fyrirbyggja og bregðast við líkamlegu, andlegu og félagslegu ofbeldi. Þar er m.a. átt við einelti, annað ofbeldi, þar með talið kynferðislegt ofbeldi, og félagslega einangrun. Sett er ákvæði um sérstakt fagráð á vegum ráðuneytisins í eineltismálum sem útfært verði í reglugerð. Þetta fagráð er hluti þess að tillögur komu í raun og veru allar frá þeim starfshópi sem skilaði inn tillögum um aðgerðir gegn einelti. Við þekkjum það auðvitað í þinginu og kannski ekki síst þeir sem sitja í hv. menntamálanefnd að þetta er vandamál sem mjög erfitt er að eiga við í skólunum og full ástæða að okkar mati að skýra lagaskyldu skóla til þess að bregðast við eineltismálum, að hafa áætlanir um hvernig bregðast skuli við eineltismálum o.s.frv.

Í fimmta lagi er lagt til að ráðuneytið fái heimild til að veita skólum undanþágu frá lagaskyldu til að starfrækja skólaráð og nemendaverndarráð ef gildar ástæður eru fyrir hendi. Þessi heimild er hugsuð fyrir fámenna skóla sem eiga erfitt með að finna fulltrúa í skólaráð og leysa hlutverk nemendaverndarráðs með öðrum hætti og fyrir sérskóla. Þetta er gert, getum við sagt, að óskum fámennra sveitarfélaga.

Sveitarstjórnum er veitt sérstök heimild til að samræma tiltekna leyfisdaga innan skólaársins fyrir alla skóla í sveitarfélaginu að höfðu samráði við hagsmunaaðila. Ástæðan fyrir þessu ákvæði er sú að sjálfdæmi sveitarfélaga um það hvernig þau skipuleggja vetrarfrí svokölluð, eins og þau eru kölluð á nútímamáli, er að sjálfsögðu mikið en hins vegar hefur mikið verið hvatt til þess að löggjafinn taki þetta mál til sérstakrar umræðu. Ég var síðast að svara bréfi í gær um þessi efni. Margir telja að það væri æskilegast að hafa vetrarfrí samræmd fyrir leik- og grunnskóla á milli allra sveitarfélaga í landinu, aðrir telja að það yrði allt of mikil röskun á samfélaginu, að þá yrðu allir vinnustaðir að gefa frí á sama tíma. Við ákváðum að fara ákveðinn milliveg, að hvetja til þess að þetta sé samræmt innan sömu sveitarfélaga en með þessu heimildarákvæði en göngum ekki lengra í ljósi þess að skoðanir eru skiptar. Þetta er eitthvað sem hv. menntamálanefnd mun skoða.

Lagt er til að samræmingarhlutverk mennta- og menningarmálaráðuneytis verði styrkt með því að ráðuneytið gefi út stjórnvaldsfyrirmæli varðandi skólagöngu fósturbarna. Þetta mál er flestum hv. þingmönnum kunnugt og snýr að því að sveitarfélög hafa ekki náð saman um það hvernig nákvæmlega eigi að fara með kostnaðarskiptingu þegar kemur að skólagöngu fósturbarna. Þar held ég að sé mjög mikilvægt að hlutirnir gangi snurðulaust fyrir sig þannig að hægt sé að vísa ábyrgðinni, getum við sagt, á einn stað með þessari heimild til að gefa út stjórnvaldsfyrirmæli.

Í áttunda lagi er lagt til að ráðuneytið fái ótvíræða heimild til þess að fjalla um ábyrgð aðila að skólasamfélaginu á því að viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag. Þetta er í raun og veru ákvæði sem líka vísar inn í ákvæðið sem ég nefndi áðan um heildstæða stefnu til að bregðast við líkamlegu, andlegu og félagslegu ofbeldi, þ.e. þarna er sérstaklega verið að setja inn ákvæði sem á að snúa að tilvikum um einelti, annað ofbeldi eða félagslega einangrun.

Loks er ákvæði sem ég þykist vita að verði rætt talsvert, þ.e. bráðabirgðaákvæði, en um er að ræða rétt grunnskólanema til að stunda samhliða grunnskólanámi einingabært nám í framhaldsskóla. Eins og hv. þingmönnum er kunnugt höfum við ekki greitt sérstaklega fyrir þessa nemendur undanfarna tvo vetur og skólar hafa eigi að síður, sumir hverjir, náð samkomulagi um þessi mál, ekki síst þar sem samgangur milli grunn- og framhaldsskóla er mikill fyrir og þá vísa ég til smærri sveitarfélaga. Ástæða þess að ákveðið var að forgangsraða fjárveitingum með þessum hætti var sú að þegar skera hefur þurft niður í framhaldsskólum um u.þ.b. 10% á þremur árum, sem eru auðvitað umtalsverðar fjárhæðir, höfum við hreinlega þurft að forgangsraða mjög grimmt, ekki síst í ljósi þess að efnahagskreppa og niðurskurður kemur í kjölfar þess að við setjum á nýja lagaskyldu ríkisins sem við köllum fræðsluskyldu, þ.e. að stjórnvöld séu skuldbundin til þess að bjóða nemendum nám við hæfi í framhaldsskóla upp að 18 ára aldri, sem ég er mjög fylgjandi. Þangað höfum við forgangsraðað fjárveitingum okkar en á móti kemur að ekki hefur verið greitt fyrir alla nemendur hvort sem þeir eru eldri en 18 ára eða yngri, þ.e. nemendur í 10. bekk. Við höfum að sjálfsögðu hvatt til þess, ef skólar hafa á því möguleika, að halda þessu áfram, þ.e. að kenna 10. bekkingum til að mynda með öðrum nemendum en við teljum okkur þó ekki geta skyldað þá til þess en gerum ráð fyrir að þetta verði orðið virkt að nýju 1. ágúst 2013. Við viljum ekki afnema þennan rétt og teljum að ef sveitarfélög, þ.e. framhaldsskólar og grunnskólar, geri með sér samkomulag um réttinn sé það jákvætt en við getum ekki ábyrgst fjárveitingar til þessa máls fyrr en á þessum tímapunkti.

Ég vil sérstaklega nefna að við undirbúning frumvarpsins var haft samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga, Skólastjórafélag Íslands, Félag grunnskólakennara, Heimili og skóla og Samtök sjálfstæðra skóla. Drög að frumvarpinu voru kynnt sérstaklega fyrir þessum aðilum á samráðsfundum og þeim gefinn kostur á að bregðast við og koma með athugasemdir. Sérstakt samráð var haft við Reykjavíkurborg um tiltekin atriði. Þá voru drög að frumvarpinu kynnt í samráðsnefnd leik- og grunnskóla sem er skipuð fulltrúum frá öllum framangreindum aðilum auk fulltrúa frá hagsmunaaðilum leikskólastigsins. Haft var samráð við velferðarráðuneytið vegna málefna fósturbarna og tillögu um að mennta- og menningarmálaráðuneytið setji reglugerð um ýmis atriði sem lúta að málefnum fósturbarna. Velferðarráðuneytinu er því kunnugt um þessi áform, en á sama tíma er unnið að endurskoðun á barnaverndarlögum og hefur í þeim efnum verið haft samráð við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Það er sameiginlegur skilningur fulltrúa beggja ráðuneyta að fjalla þurfi heildstætt um málefni fósturbarna við þessa endurskoðun til að tryggja sem best rétt þeirra til skólavistar.

Telja má að samþykkt frumvarpsins geti leitt til nokkurrar hagræðingar í rekstri sveitarfélaga og vísa ég þar í framboð á vali en í gildandi lögum er ákvæði um val nemenda um allt að þriðjung náms og eins og ég fór yfir áðan hafa sum sveitarfélög talið þetta ansi þungan kostnað að bera.

Lagabreytingar munu væntanlega ekki að öðru leyti leiða til verulegra kostnaðaráhrifa en ég vek athygli á því að ráðuneytið mun sjá um skipan og starfrækslu sérstaks fagráðs sem ætlunin er að sé ráðgefandi vegna erfiðra eineltismála. Nánar verður mælt fyrir um starfsemi þess ráðs í sérstakri reglugerð og hefur því verið tryggð ákveðin fjárveiting til þriggja ára með samþykkt ríkisstjórnar þar að lútandi. Ekki er gert ráð fyrir breyttum forsendum framlaga til grunnskóla sem reknir eru af öðrum aðilum en í frumvarpinu eru hins vegar þau nýmæli um að sveitarfélög geri þjónustusamninga við slíka skóla til ákveðins tíma og er í frumvarpinu ítarlega tilgreint um efni slíkra samninga.

Ráðgert er að reglugerð um málefni er lúta að skólagöngu fósturbarna verði sett að undangengnu samráði við sveitarfélög og yfirvöld barnaverndarmála. Réttur fósturbarna til skólagöngu er vissulega skýr í gildandi grunnskólalögum en eins og ég nefndi áðan hafa komið upp álitamál sem varða tilhögun skólagöngu, málsmeðferð og kostnaðarskiptingu sem ekki hefur tekist að leysa á viðunandi hátt.

Virðulegi forseti. Ég hef þessi orð ekki mikið fleiri. Þetta eru ekki viðamiklar breytingar á grunnskólalögum og ekki veruleg kostnaðaráhrif en það er þó mat mitt að verulegur ávinningur muni verða af ýmsum þessara breytinga fyrir skólasamfélagið. Vísa ég þá sérstaklega til réttarstöðu nemenda, málsmeðferðarúrlausna ýmissa mála og svigrúmi skóla og sveitarfélaga til útfærslu.

Legg ég svo til að máli þessu verði vísað til hv. menntamálanefndar að lokinni þessari umræðu.