139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

eftirlit með skiptastjórum þrotabúa.

[15:14]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Þó að maður vilji svara öllum þeim fyrirspurnum sem hv. þingmenn beina til manns er ég hræddur um að í þessu tilviki eigi ég erfitt um vik því að eftirlit með þrotabúum almennt og meðferð þeirra er á höndum dómstóla og gjaldþrotarétturinn á forræði hæstv. innanríkisráðherra. Er því réttara að beina spurningunni til hans.

Að því er varðar þrotameðferð fjármálafyrirtækjanna höfum við verið að koma á eftirliti þar og frumvarp sem liggur hjá þingflokkum stjórnarflokkanna og kemur vonandi fram á Alþingi mjög fljótlega gerir ráð fyrir að eftirlit með skilanefndum og slitastjórnum hinna föllnu banka falli undir Fjármálaeftirlitið. Þar eru auðvitað miklir hagsmunir vegna þess að þau þrotabú eru með viðskiptasamband við einstaklinga og koma fram við bæði einstaklinga, heimili og lítil og meðalstór fyrirtæki eins og um banka í virkum viðskiptum væri að ræða en hafa ekki sömu langtímahagsmuni af viðskiptasambandi við viðkomandi aðila eins og bankar í reglulegum rekstri hafa. Þess vegna þarf atbeina hins opinbera til að koma hegðun þessara þrotabúa í eðlilegt horf gagnvart viðskiptamönnum.

Að því er varðar hins vegar meðferð þrotabúanna að öðru leyti og íslenskan gjaldþrotarétt er það auðvitað grundvallarviðmið í íslenskum sem og alþjóðlegum gjaldþrotarétti að það eru kröfuhafar sem hafa höfuðhagsmuni af búskiptunum og geta ávallt komið athugasemdum á framfæri við dómstóla.