139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

orðalag ályktunar sameiginlegrar nefndar Íslands og Evrópuþingsins.

[15:17]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku var haldinn fundur sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og Evrópuþingsins í Reykjavík. Fyrir fundinum lágu drög að ályktun sem ekki voru tekin til afgreiðslu, enda komu fram verulegar athugasemdir við framsetningu ályktunarinnar fyrir fundinn. Allt efni hennar er hallelúja-ákall vegna ESB og augljóst að verið er að samþætta alls konar pólitísk álitaefni við það. Ef það er ætlun meiri hluta þingsins að samþykkja ályktanir á borð við þá sem þarna var til umfjöllunar er ljóst að stjórnvöld eru reiðubúin til verulegrar eftirgjafar gagnvart Evrópusambandinu. Efni og tilurð ályktunarinnar vekur einnig spurningar um vinnulag og eftirlit þingsins við aðildarferlið.

Nú hefur komið í ljós að samkvæmt starfsreglum þessarar nefndar eiga fundir hennar að vera öllum opnir. Ég varð ekki vör við það og hef ekki orðið vör við það að almenningi eða fjölmiðlum hafi verið gert það ljóst. Ég tel hins vegar mjög mikilvægt að almenningur hafi sem mesta aðkomu að því sem þar fer fram enda er um grundvallarhagsmuni þjóðarinnar að ræða.

Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra að því hvort hann sé mér sammála um að umrædd ályktun sé opinbert plagg sem eigi að þýða á íslensku og ræða efnislega. Ég vil líka spyrja formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem hefur þá afstöðu að íslenskum hagsmunum sé betur borgið utan Evrópusambandsins, hvort eðlilegt sé að pólitísk stefnumótun á Íslandi sé nánast mótuð af aðildarumsókninni en augljóst er af efni þessarar ályktunar að öll verk ríkisstjórnarinnar eru liður í því að koma okkur inn í Evrópusambandið.