139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

Vaðlaheiðargöng.

655. mál
[15:44]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það er mjög ánægjulegt það sem er í gangi gagnvart Vaðlaheiðargöngum. Forval hefur verið auglýst og verður opnað á morgun, 3. maí. Það er ákaflega ánægjulegt. Loksins hefur tekist að koma þessu verki til framkvæmda og við þyrftum að koma miklu fleiri verkum til framkvæmda. Það er jú þannig, eins og við höfum oft verið sammála um hér á hinu háa Alþingi, að tíminn fyrir hið opinbera til að framkvæma er á samdráttartímum eins og nú eru; að ríkið haldi frekar að sér höndum á þenslutímum. Þetta er kennt í hagfræði 101 en því miður hefur sjaldan verið farið eftir því.

Ég vil líka nota þetta tækifæri, eins og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, og þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir það svar sem hann gaf áðan við þeirri spurningu sem hv. þm. Mörður Árnason setti fram. Það er afdráttarlaust og skýrt og ég fagna því og er sammála því, enda hefur sá háttur ekki verið viðhafður hvað varðar Hvalfjarðargöng.

Aðalatriðið er þetta, virðulegi forseti: Við skulum bretta upp ermar. Vonandi skila margir inn forvalsgögnum á morgun. Eftir það hefst útboð og þá verða opnuð tilboð með fjárupphæðum og þá getum við klárað að reikna dæmið til fulls vegna þess að framkvæmdakostnaður, vextir og umferðarmagn er það sem ræður úrslitum.