139. löggjafarþing — 115. fundur,  2. maí 2011.

lokafjárlög 2009.

570. mál
[16:50]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir andsvarið.

Svo það fari ekkert á milli mála sem ég sagði í ræðu minni — ég tók bara tvö dæmi, ég gat tekið mörg önnur dæmi — ef menn skoða lokafjárlögin er verið að færa til heimildir sem nema tugum milljarða fram og til baka, bæði í plús og mínus. Það eru náttúrlega eðlilegar skýringar á tekjuhliðinni, það gefur augaleið að tekjuhliðin er það sem menn áætla að verði tekjur ríkissjóðs af skatttekjum og öðru en fjárútlátin, útgjaldahliðin á fjárlögunum þarf að mínu mati að vera algjörlega römmuð niður miðað við það sem hv. Alþingi áætlar að viðkomandi stofnun, alveg sama hvaða nafni hún heitir, hafi til umráða á viðkomandi ári.

Af því að ég nefndi eina stofnun, Hafrannsóknastofnun, þá jukust umsvif hennar um 15,4%. Það var ekki verið að hækka laun eða eitthvað slíkt heldur jukust umsvif stofnunarinnar í rekstrinum um 15,4%. Það geta líka verið skýringar á því og eru það eflaust líka, svo öllu sé haldið til haga og maður sé ekki ósanngjarn í málflutningi, að stofnunin var að taka að sér ákveðin verkefni sem kosta útgjöld, það gefur augaleið, vegna þess að sértekjurnar, og þessir 300 milljarðar sem þær aukast, fara úr 600 upp í 900 og síðan ráðstafar stofnunin þeim. Það er í raun og veru umfang rekstrar stofnunarinnar.

Mín skoðun er sú að það sé mikilvægt að draga þetta fram til að allar aðrar stofnanir, sama hvort það eru heilbrigðisstofnanir eða aðrar, sitji við sama borð af því að hæstv. ríkisstjórn og hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa markað sér ákveðna stefnu um að skera skuli minna niður í velferðarmálum, heilbrigðismálum og menntamálum en meira niður annars staðar, í opinberri stjórnsýslu og öðru, en síðan er það ekki gert. Þess vegna er svo mikilvægt að menn hafi útgjaldarammann algjörlega fyrir framan sig um hvað hver stofnun má ráðstafa á viðkomandi fjárlagaári þannig að allir sitji í raun við sama borð. Aðalatriðið er þó að vilji þingsins (Forseti hringir.) kemur þá fram um hvert umfang rekstrar viðkomandi stofnunar eigi að vera.