139. löggjafarþing — 115. fundur,  2. maí 2011.

lokafjárlög 2009.

570. mál
[16:58]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir þær aðfinnslur og þær ábendingar sem koma fram í máli hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar þó að mér finnist hann hafa lagt svolitla lykkju á leið sína til að reyna að kenna þetta við þá velferðar- og vinstristjórn sem hann kallar hæstv. ríkisstjórn. Auðvitað vitum við að þetta er áratugasleifarlag sem þingmaðurinn var að lýsa og er verk ótalmargra ríkisstjórna — menn geta svo velt því fyrir sér hverjir hafi haldið lengst um stjórnartauma í lýðveldissögunni en það er annað mál. Auðvitað þarf að taka á þessu og það er því fagnaðarefni, sem fram hefur komið í þessari umræðu, að hv. fjárlaganefnd ætlar beinlínis að taka á málinu og vinna skýrslu fyrir þingið sem kemur þá hingað og verður, vænti ég, tilefni uppbyggilegra og yfirvegaðra umræðna um það hvernig ráðin verður bót á þessu.

Sjónarmiðið sem hér hefur verið sett fram er fullkomlega gilt og full ástæða, og hefur verið óralengi, ekki síst þó nú á krepputímum, til að taka upp meiri festu við framkvæmd fjárlaga og ríkisreksturinn.

Af því að hv. þm. Pétur H. Blöndal kom hingað upp og fór að tala um ráðherraábyrgð í þessu efni gæti sú sök bitið sekan ef látið væri á það reyna því að ábyrgðin er fyrst og fremst þingsins. Það er þingið sem hefur komið á og sætt sig við þessi vinnubrögð með því að samþykkja lokafjárlög ævinlega eftir á. Ég held þar af leiðandi að það standi þinginu næst að gera eitthvað í því að ráða bót á þessu. Ég er því ekki beint í andsvari, en ég vildi fá að koma þessu sjónarmiði að.