139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég spyr að gefnu tilefni um ráðgjafana. Þetta er sérstaklega tekið út úr í frumvarpinu og sérákvæði um það í ákvæði til bráðabirgða. Ég hef ekki skoðað það nýlega, en ég held að nokkrir ráðherrar hafi slíka ráðgjafa sem eru ráðnir á sömu forsendum og aðstoðarmenn í dag. Ég held að svo sé. Það þarf þá að skoða réttarstöðu þeirra í ljósi þess og spurning hvort ekki er nauðsynlegt að taka eitthvað á þessu í frumvarpinu. Það getur vel verið að réttlætanlegt sé að hafa slíka ráðgjafa, en það þarf þá að vera í föstum skorðum.

Varðandi það hins vegar hvort meiri hluti sé fyrir málinu fannst mér hæstv. forsætisráðherra, með þeim upplýsingum að einn ráðherra ríkisstjórnarinnar væri andvígur frumvarpinu, eiginlega svara spurningunni, (Forseti hringir.) nema hún hafi upplýsingar um að stuðnings sé að vænta við frumvarpið úr röðum stjórnarandstöðunnar. (Forseti hringir.) Að svo stöddu hef ég ekki ástæðu til að ætla að svo sé.