139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:15]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir á margan hátt athyglisverða ræðu, mjög gagnrýna ræðu á þetta frumvarp. Ég átti satt að segja ekki von á því að hv. þingmaður sýndi okkur fram á það hversu vanbúið þetta frumvarp er að öllu leyti.

Ég er sammála hv. þingmanni um að í þessu frumvarpi er verið að auka embættismannavaldið. Það er fremur verið að styrkja það en veikja, og það sem blasir við öllum mönnum er að þegar verið er að slá saman stórum ráðuneytum, eins og við sjáum dæmi um í velferðarráðuneytinu, er dregið úr hinu pólitíska valdi, valdi þess fólks sem sækir sér pólitíska ábyrgð í kosningum til almennings í landinu. Það sem gerist þá er að vald embættismannanna styrkist með sama hætti. Þegar fólk talar um að þetta auki skilvirkni má ekki gleyma því að þessu fylgir líka það að pólitíska valdið minnkar.

Hv. þingmaður sagði í lok máls síns áðan að hún styddi meginefni þessa frumvarps. Þá spyr ég hv. þingmann: Hver verður afstaða hv. þingmanns til frumvarpsins? Hv. þingmaður hafði uppi mjög miklar aðfinnslur við mjög stóra hluti sem ég hefði talið að væru hluti af meginefni þessa frumvarps, þeirri hugmyndafræði sem í raun býr að baki frumvarpinu sem mér fannst hv. þingmaður gagnrýna mjög harðlega, út af fyrir sig málefnalega fyrir sinn hatt.

Það blasir við öllum þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra að hér er verið að greiða leiðina að því að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og sameina það iðnaðarráðuneytinu. Flokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs 15.–16. janúar 2010 skoraði á stjórn og þingflokk VG að endurskoða áform um endurskipulagningu Stjórnarráðsins. Er þetta ekki enn þá afstaða VG? Hefur eitthvað breyst? Hefur eitthvað breyst í aðstæðum? Er eitthvað sem gerir það að verkum (Forseti hringir.) núna að það sé ástæða til að sameina þessi ráðuneyti sem menn töldu ekki ástæðu til um miðjan janúar 2010?