139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hélt að hv. þingmaður ætlaði að nota sem dæmi um foringjaræði þátttöku Íslands í átökunum í Líbíu. Ég hélt að hv. þingmaður ætlaði að nota sem dæmi um foringjaræði Icesave-málið. Ég hélt það. Ég hélt að hv. þingmaður ætlaði að nota tækifærið og lýsa því hvað gerðist hér í júnímánuði — var það ekki 2009? — þegar tveir ráðherrar, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, ákváðu að skrifa undir samningana sem eru nefndir Svavarssamningar, mestu klúðursamningar Íslandssögunnar, og voru ekki einu sinni búnir að ræða það í ríkisstjórn og ekki með þingmeirihluta. Ég hélt að hv. þingmaður ætlaði að nota þetta dæmi, þetta er svo gott dæmi. Það er svo fullkomlega galið að einhverjum skuli hafa dottið þetta í hug.

Ég ætla ekkert að flytja ræður hæstv. innanríkisráðherra Ögmundar Jónassonar um þetta mál. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér þær. Hann fór ágætlega yfir málið.

Til að útskýra fyrir hv. þingmanni undarlega umræðu um að einhver ætlaði að álykta eitthvað á einhverjum fundi, þá er um að ræða fund sem var í síðustu viku, sem er verið að ræða hér, sameiginlegan þingmannafund EFTA-þingmanna og Evrópuþingsins. Drögin liggja fyrir. Það er mjög óvanalegt að drögin séu ekki afgreidd, það komu bæði drög og breytingartillaga. En þennan „einhvern fund“ og þessa „einhverja ályktun“ hvet ég hv. þingmann til að kynna sér.

Varðandi eina línu í Evrópusambandinu hvet ég hv. þingmann til að lesa drögin og ræðurnar sem þar voru fluttar — ég vona að þær hafi verið teknar upp — þar sem var farið yfir að við þyrftum að breyta Stjórnarráðinu hér, m.a. landbúnaðarmálunum, til að ganga í Evrópusambandið og því var fagnað (Forseti hringir.) að við værum að vinna að því.