139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

rekstrargrundvöllur gagnavera á Íslandi.

[15:55]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir að taka þetta mál hér á dagskrá enda er mikilvægt að við höldum áfram umræðu um stöðu gagnaveranna á Íslandi. Þetta er vaxtargrein í atvinnulífi okkar en eins og Alþingi hefur fengið að snerta á á undanförnum missirum er þetta um leið viðkvæm vaxtargrein.

Við samþykktum í desember þó nokkuð miklar breytingar á virðisaukaskattslögum til að koma til móts við sjónarmið gagnaveranna og til að stuðla að því að gagnaverin gætu boðið samkeppnishæft verð í samkeppni sinni við að laða viðskiptavini hingað til lands. En við hljótum alltaf að staldra við þá spurningu: Geta íslensk gagnaver verið samkeppnishæf til lengri tíma litið?

Það má eiginlega segja að við þurfum að skoða þar þrjá þætti. Í fyrsta lagi verðið á orkunni sem þau þurfa, í öðru lagi verðið á þeirri þjónustu sem þau bjóða á því svæði innan húsanna sem þau hafa í boði og í þriðja lagi verðið á bandbreiddinni. Um leið og maður fullyrðir að íslensk gagnaver þurfi að standast samkeppni í öllum þessum þremur þáttum er ljóst að íslensk gagnaver henta frekar viðskiptavinum sem þurfa á mikilli orku að halda, þ.e. miklu rafmagni, en eru ekki jafnháð bandbreiddinni vegna fjarlægðar frá meginmörkuðum. Þannig spilar fjarlægðin inn í það að verðið á bandbreiddinni verður kannski ekki jafnsamkeppnishæft en um leið getum við boðið hreina, græna og ódýra orku.

Þess vegna vildi ég segja hér í umræðunni um Farice og bandbreiddina að það er svo mikilvægt að Farice verði ekki þröskuldur í uppbyggingu gagnavera hér á landi og mikilvægt er að náið samstarf sé á milli Farice, eigenda þess og gagnaveranna vegna þess að hagsmunir þessara aðila fara saman við það að byggja upp gagnaveraiðnaðinn á Íslandi. En til grundvallar (Forseti hringir.) verða að vera viðskiptalegar forsendur í því sambandi.