139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

rekstrargrundvöllur gagnavera á Íslandi.

[16:03]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra minntist á aðkomu fjármálaráðuneytisins að uppbyggingu gagnavera á Íslandi. Þau afskipti hafa aðallega verið til tjóns. Fyrir fáum árum þegar fyrst komst hreyfing á þær hugmyndir að byggja upp gagnaver á Íslandi á Suðurnesjum höfðu menn allt á hornum sér í fjármálaráðuneytinu, drógu lappirnar og sýndu ónot. Ónot í þessum efnum hafa reyndar verið það flagg sem íslenska ríkisstjórnin hefur veifað, ónot gegn atvinnuuppbyggingu á Íslandi. Þetta er grábölvað, svo vægt sé til orða tekið. Það var fyrst í fyrrahaust sem fjármálaráðuneytið kláraði þó þá vinnu sem varðaði virðisaukann og annað er laut að grundvelli þess að byggja hér upp gagnaver. Á leiðinni töpuðust þúsundir starfa og miklar fjárupphæðir. Til að mynda tapaði Reykjanesbær, sem hefur verið í einelti ásamt Suðurnesjunum öllum hjá hæstv. ríkisstjórn, af möguleikum frá stærstu fyrirtækjum í heimi sem höfðu áhuga á að byggja upp gagnaver á Íslandi. Menn gáfust hreinlega upp vegna þess að óvissan var endalaus og þeir sem standa í alvörurekstri láta ekki bjóða sér slíkt; þeir fara bara annað eins og gefur að skilja, við erum ekki nafli alheimsins. Þetta er því miður staðan. Vonandi rjátlast reiðileysið af (Forseti hringir.) hæstv. ríkisstjórn og vonandi stendur fjármálaráðherra við alla þá góðu kosti sem hann vakti máls á sem eiga að tryggja (Forseti hringir.) að hægt sé að byggja þennan rekstur upp á góðan hátt.