139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:42]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Það er alveg rétt að það einkennir okkur Íslendinga að við erum oft og tíðum dálítið óþolinmóð. Mörgum finnst ganga svolítið hægt með þær breytingar sem menn vildu sjá á störfum Alþingis, störfum stjórnsýslunnar, samspil á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds og þær breytingar sem margir væntu þess að sjá eftir þetta bankahrun. Það er alveg rétt að það er af miklu að taka. Hins vegar er gríðarlega mikið atriði að hver mánuður sem líður frá þessu stóra hruni hérna gerir okkur alltaf erfiðara og erfiðara að ráðast í róttækar breytingar á stjórnarháttum og jafnvel kúltúrnum. Það er alveg rétt að menningin innan okkar raða, og sá sem hér stendur er ekkert undanskilinn í því efni, er ekki alltaf upp á hið besta, vinnubrögðin og annað því um líkt.

Hv. þingmaður kom hér inn á það að þingmenn segðu af sér þingmennsku þegar þeir gerðust ráðherrar eða kölluðu inn varamenn og því langar mig að spyrja: Hvernig finnst hv. þingmanni ganga að skilja á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds? Eitt af því sem hefur verið gagnrýnt er að ekki sé nægilega vel skilið á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Hvernig getum við breytt vinnubrögðum okkar? Er það ekki einmitt í málum eins og þessum, að það sé ekkert óeðlilegt við að þingið geri verulegar athugasemdir við það þegar fram koma mál eins og þetta sem í rauninni felur í sér flutning á valdi frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins í málefnum sem lúta að Stjórnarráði Íslands?