139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

koma hvítabjarna til landsins.

[10:49]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir góðar undirtektir en vil þá jafnframt beina þeirri spurningu til hans hvort hann eða ráðuneyti hans hyggist taka frumkvæði í þessu máli. Mér finnst eiginlega meira um vert að fá vitneskju um að tekin verði einhver markviss skref og raunverulega farið yfir þetta mál. Þetta er mikið öryggismál fyrir þá sem leggja leið sína á Hornstrandir, hvort sem þeir gera það á eigin vegum eða á vegum ferðaskrifstofa, en þetta er líka gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir alla ferðaþjónustu, ímyndarsköpun og annað sem lýtur að nýtingu þessa friðlands í þágu fólks og útivistar.