139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

Landeyjahöfn og næstu skref í samgöngum milli lands og Eyja.

[11:28]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Auðvitað snúast samgöngumál um mannréttindi, að komast örugglega leiðar sinnar. Þessi mannréttindi eru að mörgu leyti brotin víða um land vegna þess að menn, konur og börn eiga í erfiðleikum með að komast að þeirri þjónustu sem kannski aðrir landsmenn telja vera sjálfgefna og eðlilega í námunda við heimili sín. Vestmannaeyingar búa við þetta, þeir þurfa auðvitað að sækja margvíslega og brýna þjónustu upp á land, sem svo heitir, og má þar nefna sjúkrahúsþjónustu og námsþjónustu margvíslega. Þess vegna er mjög brýnt að þessari mikla samgöngubót, sem Landeyjahöfn er og vonandi verður, verði komið í lag á sem stystum tíma.

Ég tel að hæstv. ráðherra muni beita sér með eðlilegum hætti í því máli og ég heyri á mæli hæstv. ráðherra að hann mun leita allra leiða til þess að hafa þessa glæsilegu höfn opna eins oft og mögulegt er. Ég vil hins vegar beina því til hæstv. ráðherra að þjónusta í þessari höfn verði ekki einvörðungu fyrir Herjólf heldur líka aðra ferðamannabáta og skemmtibáta, ef svo ber undir, því að þessi höfn á að geta rúmað eins víðtæka ferðaþjónustu og nokkur kostur er Vestmannaeyingum (Forseti hringir.) og þeirra litla hagkerfi til heilla