139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[12:45]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get glatt hv. þingmann með því að ég er ekki grátbólginn yfir þessu máli og kannast ekki við að aðrir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu það. Munurinn á mér og hv. þm. Merði Árnasyni er hins vegar sá þegar kemur að þessu máli að hann er með slæma samvisku í því en ekki ég. Það er munurinn á okkur tveimur þegar kemur að þessu landsdómsmáli.

Það var eðlileg krafa hjá mér, virðulegi forseti, að óska eftir því að verjandi Geirs H. Haardes yrði kallaður fyrir allsherjarnefnd til að segja álit sitt á þessu máli og það var líka eðlileg krafa að saksóknari Alþingis yrði fenginn til að uppljóstra sinni sýn á efni málsins. Ástæðan er sú að saksóknari Alþingis hefur ekki bara einu sinni heldur oftar verið með opinberar yfirlýsingar um það og hvatningar til löggjafarþingsins um að það þurfi að breyta landsdómslögunum vegna þess málareksturs sem þar stendur yfir Geir H. Haarde, fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra.

Í annan stað var sú beiðni mjög eðlileg vegna þess að það var upplýst í 1. umr. um málið að við vinnslu þessa máls var haft samband við saksóknara Alþingis með einum eða öðrum hætti. Saksóknari Alþingis átti samtal við saksóknarnefnd Alþingis um þetta tiltekna frumvarp og það er eðlilegt í ljósi þess að saksóknari Alþingis kom á fund allsherjarnefndar til að fjalla um þær ábendingar og þær umræður sem hún tók þátt í við undirbúning málsins. Svo segir hv. þingmaður „heyr á endemi“ þegar eftir þessu er óskað. Þetta eru mjög eðlilegar og málefnalegar beiðnir frá mér og hv. þm. Birgi Ármannssyni við meðferð þessa máls.