139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[12:47]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég tel að beiðni þeirra hv. þingmanna Sigurðar Kára Kristjánssonar og Birgis Ármannssonar um að fá að tala á vegum allsherjarnefndar við sérfræðinga í réttarfari eðlilega, ég tel hana málefnalega og ég tel að ef aðstæður hefðu verið með öðrum hætti hefði átt að verða við henni. Það var ekki hægt. Hins vegar tel ég algerlega ómálefnalega og eingöngu hrápólitíska þá beiðni eða þá ósk og kröfu að fá að draga það dómsmál sem hér er háð í öðru húsi inn á fund allsherjarnefndar og síðan inn á vettvang þingsins. (Gripið fram í.) Í lögunum frá 1963 sem við förum eftir vegna þess að við höfum ekki önnur lög og eru að ýmsu leyti ágæt er sérstaklega fyrir mælt um hvaða afskipti, hver tengsl Alþingis eigi að vera við þá hluti sem þar fara fram, einmitt um þá saksóknarnefnd sem þingmaðurinn talaði um. Það væri fullkomlega óeðlilegt að fara með einhverjum öðrum hætti að í því efni að nefndir þingsins færu að kalla til saksóknara, verjendur eða dómarana til að fá álit þeirra á einu og öðru. Ég verð að segja það hér að mér hefur ekki fundist það góð venja sem menn hafa komið sér upp meðal lögfræðinga að þeir reki mál sitt í fjölmiðlum, siður sem tekinn er sennilega upp frá Ameríku og hefur mjög færst í vöxt undanfarna tvo áratugi eða svo, að láta sér ekki nægja að reka mál sitt fyrir dómi sem þeir eru menntaðir til og þeim er falið að gera heldur reyna að vinna það líka í fjölmiðlum með einhverjum hætti.

Ég tel algerlega fráleitt að þingmenn hér á þinginu séu að ýta undir nákvæmlega þetta í máli sem vissulega er viðkvæmt en Alþingi tók ákvörðun um á sínum tíma og ég sem þá var hluti af því Alþingi ber engan kinnroða fyrir (Forseti hringir.) og er algerlega með hreina samvisku eftir þau skipti.