139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[13:32]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Frá því að ég tók sæti á Alþingi árið 2007 hef ég verið talsmaður þess að við vöndum vinnubrögðin, leggjum okkur öll fram um að vinnan við frumvörp sé vel úr garði gerð. Ég var kosinn til sætis í svokallaðri saksóknarnefnd sem hefur það hlutverk að fylgja eftir og fylgjast með þeim störfum sem saksóknara Alþingis eru falin samkvæmt lögum og kannski fyrst og fremst til að gæta að því að öll lagaumgjörð sé í lagi. Nefndin sem slík hefur túlkað hlutverk sitt afar þröngt. Við viljum ekki á nokkurn hátt skipta okkur af efnislegum atriðum og væntanlegum málflutningi í málinu en lítum svo á að við þurfum að gæta að því að lögin séu í lagi og að dómurinn geti starfað eðlilega.

Þannig eru málin núna að 8 dómendur af 15 eru kosnir af Alþingi til sex ára í senn. Alþingi kaus síðast aðalmenn í landsdóm 11. maí 2005 (Gripið fram í: 2006.) — 2005, fyrir sex árum, og þess vegna lá fyrir að kjörtímabil þeirra mundi renna út 11. maí 2011. Þetta er einfaldlega staðreynd og sá veruleiki sem blasir við okkur sem erum á Alþingi og við því þarf að bregðast með breytingu á lögum.

Fyrir Alþingi var lagt frumvarp af hæstv. innanríkisráðherra fyrir síðustu áramót. Frumvarp það fól í sér ýmsar formbreytingar á störfum dómsins en þar var ákvæði svipaðs eðlis og það sem við fjöllum nú um en þar var tekið af skarið um að dómarar sem eiga sæti í landsdómi skyldu ljúka meðferð máls sem væri hafið. Það var reyndar orðað með öðrum hætti en málið sofnaði einfaldlega í nefnd eftir því sem ég best veit og kom ekki til atkvæðagreiðslu á Alþingi eftir 2. umr. þannig að saksóknarnefndin tók af skarið um að þeir dómendur sem nú eiga sæti í landsdómi tækju við meðferð málsins og kláruðu málið þótt kjörtímabil þeirra væri á enda.

Rætt hefur verið í ræðustóli Alþingis um að hugsanlega séu einhverjar skárri leiðir og varasamt sé að breyta lögunum. Síðan hefur því verið velt upp hvort þetta sé heppilegt eða óheppilegt. Ég held einfaldlega að þetta sé rétta leiðin. Ég held að rétta leiðin til að gæta réttaröryggis sakbornings í þessu máli sé að rjúfa ekki málsmeðferðina. Það er í fullu samræmi við meginreglur einkamálaréttarfars og opinbers réttarfars um milliliðalausa málsmeðferð. Hvað sem mönnum finnst um málið efnislega þá held ég að flestir séu sammála um að við viljum hafa lögin það vel úr garði gerð að engum blandist hugur um að réttaröryggis þess sem hefur verið ákærður sé gætt.

Hér hafa sjálfstæðismenn rætt að þeir hafi kallað eftir sérfræðingum fyrir allsherjarnefnd til að fjalla um þetta. Það var ekki gert í saksóknarnefndinni. Ég leitaði mér hins vegar sjálfur upplýsinga og hef ekki heyrt nokkurn sérfræðing á þessu sviði ýja að því eða færa fyrir því rök að þetta sé á einhvern hátt óeðlilegt eða brot á lögum. Það sé hins vegar að fullu sambærilegt við ákvæði 197. gr. og 198. gr. laga um meðferð opinberra mála, 164. gr. og 165. gr. laga um meðferð einkamála og ákvæði til bráðabirgða við 1. og 2. gr. í lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, en eins og segir í greinargerðinni sækir ákvæðið fyrirmynd sína í 48. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938, þar sem fjallað er um dómara í félagsdómi en þar segir að dómarar sem hafa byrjað meðferð máls skuli ljúka því þótt kjörtímabil þeirra sé á enda. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur af þessu miklar áhyggjur og hefur velt því upp hvort þetta komi á einhvern hátt til með að skarast við mögulega nýja dóma eða nýjar málsmeðferðir sem gætu hugsanlega komið fyrir nýjan dóm. Ég held að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því. Fyrir Hæstarétti eru rekin mismunandi mál þar sem eru mismunandi dómarar. Að sjálfsögðu þurfa dómarar að fara eftir ríkjandi fordæmum en það á ekki að valda vandkvæðum í þessu máli.

Síðan kom hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og lýsti því yfir að tilgangurinn væri að koma lögum yfir sakborninginn. Ég hafna því alfarið. Það er einfaldlega verið að bregðast við þeirri staðreynd að tími nokkurra dómara rennur út 11. maí næstkomandi og þess vegna varð að bregðast við.