139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[14:55]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona eða geri ekki ráð fyrir að það megi skilja orð hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar svo að ég sé þá kommúnisti með grímu fyrst ég er ekki grímulaus kommúnisti.

Ég hef þá trú á félögum mínum sem sitja á þingi að þeir greiði atkvæði um mál eftir bestu getu og sannfæringu. Ég hef engar forsendur til að telja að það hafi verið eitthvað öðruvísi í þessu máli en öðrum málum. Þetta var gífurlega erfitt mál. Það tók mikið á okkur öll, held ég, sem sitjum á Alþingi þannig að ég get ekki tekið undir þau orð hv. þingmanns að þetta hafi verið pólitískt uppgjör eða að menn hafi greitt atkvæði gegn samvisku sinni. Niðurstaðan varð þessi. Ég vildi að hún hefði orðið önnur. En ákvörðunin um að ákæra bara fyrrverandi forsætisráðherra en ekki aðra ráðherra gerði það ekki að verkum að ég vildi draga afstöðu mína til baka af því að það ætti að ákæra hina ráðherrana. Ég greiddi atkvæði eftir bestu sannfæringu og verð að treysta því að aðrir þingmenn hafi gert það líka.

Hvað varðar svar hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar held ég að hann hafi að vissu leyti sýnt hver niðurstaðan hefði orðið ef við hefðum kallað einhverja lögfræðinga fyrir nefndina. Það getur náttúrlega enginn svarað því nema landsdómur sjálfur og svo í framhaldinu Mannréttindadómstóll Evrópu hvort þetta hafi umrædd áhrif. Þetta er lágmarksbreyting og ég hef þá sannfæringu að ef við færum út í það að samþykkja t.d. frumvarp innanríkisráðherra sem gengur lengra eða ef við mundum ekki gera þessa breytingu værum við að fremja lagaspjöll og þá værum við virkilega að gera mjög alvarlega hluti því að þá hefðum við bein áhrif á það hverjir (Forseti hringir.) dæma í málinu og það er í hæsta máta óeðlilegt.