139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[15:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég hef ekki blandað mér í þessa umræðu fyrr en nú, nema með andsvörum við þá þingmenn sem hafa talað. Það er aðallega andsvör hv. þm. Marðar Árnasonar sem ollu því að ég kem aftur upp í ræðupúlt vegna þess að hann sagði að þingmenn Sjálfstæðisflokksins væru grátandi eins og grátkonur. Þannig var hans málefnalega innlegg í þessa umræðu. Ég vil taka það fram að ég er ekki gráti nær og mótmæli því að slíkur málflutningur fari fram á Alþingi.

Það kom fram hjá þeim ágæta hv. þm. Merði Árnasyni að hann vildi hafa sem minnsta umræðu um þetta mál, hann teldi það frekar neyðarlegt og vildi að það færi hratt og fljótt í gegn þannig að ekki væri mikið verið að trufla framganginn. Ég ætla ekki að trufla framganginn þó að ég komi inn á nokkur atriði.

Ég tek undir það sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði rétt áðan, að þetta mál væri allt saman eitt allsherjarklúður. Það að breyta lögum frá Alþingi til að gera landsdómslögin rökréttari fellst ég ekki á. Ég felst ekki á að í máli sem búið er að hefja skuli menn vilja breyta lögum, breyta umgjörðinni utan um málið, segjast gera það til að gæta hagsmuna sakbornings eða þess sem ákærður var, ég veit ekki einu sinni hvort hann er sakborningur því að það er ekki búið að ákæra hann formlega enn, og þykjast gera það til að samfella sé í málarekstrinum.

Nú hefur landsdómur haldið tvö þing, að mér skilst, og tekið formlega á ýmsum deilumálum en ekki fjallað efnislega um þetta mál, enda er ekki búið að ákæra. Þess vegna skil ég ekki, frú forseti, af hverju menn geta ekki hreinlega kosið átta nýja fulltrúa Alþingis í nýjan landsdóm samkvæmt núgildandi lögum og haldið sig við þá lagasetningu í þessu máli þannig að ekki sé verið að breyta lögunum á miðju ferli. Það lítur alla vega ekki vel út gagnvart þeim sem hugsanlega fjalla um þetta víðar, kannski Mannréttindadómstóli Evrópu, að Alþingi, sem er ákærandi, saksóknari og kýs átta af 15 dómurum, skuli hafa breytt lögunum eftir að málið var hafið.

Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson tók líka þátt í umræðunni og fyrst ég er kominn í ræðustól er rétt að ég komi inn á að hann sagðist hafa verið kosinn til að gæta góðrar lögfræði í málinu, enda mikill og góður lögfræðingur. Ég mundi nú ekki monta mig af öllu því, frú forseti, sem við upplifum af lögfræðilegu klúðri í þessu máli. Það frumvarp sem við ræðum átti að sjálfsögðu að leggja fyrir áður en ákært var og áður en þingsályktunartillagan sem fól í sér ákæru á hendur hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde var lögð fram. Maður gerir kröfu til þess að góðir lögmenn, eins og hv. þm. Atli Gíslason, átti sig á svona hlutum áður en út í mál er farið. Þetta frumvarp átti að liggja fyrir mun fyrr í ferlinu. Þá hefði enginn getað sagt að umgjörðinni hefði verið breytt eftir að komið var út í miðja á.

Þetta mál er allt saman hið mesta klúður. Ef ég væri lögfræðingur mundi ég helst ekki viljað hafa komið nálægt því, hvað þá að ég bæri ábyrgð á því eins og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson lét að liggja. Hann var spurður að því af mér hvernig þetta liti út hjá Mannréttindadómstóli Evrópu. Hann var ekki lengi að kveða upp dóm fyrir þann ágæta dómstól. Hann sagði að Mannréttindadómstóll Evrópu mundi ekkert hafa við málið að athuga. Hann kvað upp dóm héðan úr ræðustól um hvernig Mannréttindadómstóll Evrópu mundi afgreiða málið og sýnist mér óþarfi að vísa málinu þangað. Þetta er náttúrlega með ólíkindum, frú forseti. Ég ætla Mannréttindadómstóli Evrópu að kveða upp sína dóma án aðstoðar einstakra hv. þingmanna hér.

Tíminn líður. Ég hef tekið eftir því að hann líður hratt (Gripið fram í: Á gervihnattaöld!) [Hlátur í þingsal.] og hann er búin að líða ótrúlega hratt í þessu máli vegna þess hægagangs sem er á öllum framkvæmdaratriðum sem í gangi eru: Hvenær sakborningurinn fékk verjanda, hvenær verður ákært formlega. Það er ekki einu sinni búið að ákæra formlega. Hægagangurinn er þvílíkur að ég mundi segja að öll lögmál séu brotin varðandi réttláta málsmeðferð. Það stendur reyndar í 70. gr. stjórnarskrárinnar. Ég var einmitt að leggja áherslu á það fyrir nokkrum dögum að menn ættu að fara að vinna að því að fylgja þeirri stjórnarskrá sem við höfum áður en þeir búa til nýja, sem ég tel reyndar að þurfi nauðsynlega að gera. Í 70. gr. stjórnarskrárinnar, sem er nú í gildi, leyfi ég mér að lesa, með leyfi forseta:

„Öllum ber réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli.“

Hæfilegur tími. Það eru komnir sjö mánuðir. Og allan þann tíma situr hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde og bíður. Hann er tekinn úr sambandi. Það var kannski tilgangurinn með þessu öllu. Hann getur ekkert gert. Hann getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér, getur ekki varið sig. Hann situr og bíður. Þetta er ekki réttlát málsmeðferð. Svo stendur: „fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli.“ Landsdómur er hvorki óhlutdrægur né óháður. Hann er kjörinn af Alþingi. Hann er kjörinn af þeim aðila sem ákærir. (Gripið fram í.) Þetta er stór veila. Það er rökvilla í lögunum um landsdóm (Gripið fram í.) sem menn áttu að sjálfsögðu að sjá fyrir löngu, þ.e. lögfræðingarnir sem að þessu stóðu. Ég geri þá kröfu til þeirra að þeir hefðu átt að sjá það að landsdómur gagnaðist ekki í þessu máli af því hann er hvorki óháður né óhlutdrægur eins og stjórnarskráin gerir kröfu um.

Ég vil taka undir það sem hv. þm. Árni Johnsen sagði áðan um þá sem alltaf kenna öðrum um. Sumir hv. þingmenn opna varla munninn í ræðustól Alþingis án þess að kenna Sjálfstæðisflokknum um. Gott ef veðrið er ekki slæmt suma daga af því Sjálfstæðisflokkurinn var við völd í 18 ár. Það er orðið allt að því hlægilegt, frú forseti, hvernig hv. þingmenn undanskilja sig allri ábyrgð, taka ekki ábyrgð á nokkrum hlut af því að allt er Sjálfstæðisflokknum að kenna. Þetta er svo auðvelt að það rennur upp úr þeim eins og bráðið smjör. (Gripið fram í.) Bráðið smjör getur verið gott, sérstaklega út á saltfisk. Ég tek undir með hv. þm. Árna Johnsen, það er ekki nokkur hemja hvernig menn geta ekki tekið ábyrgð á hlutum sem þeir þó framkvæma. Ég ætla að minna hv. stjórnarliða, suma hverja, á að þeir eru stuðningsmenn ríkisstjórnar sem vinnur og framkvæmir alla daga.

Ég get ekki lokið máli mínu nema velta því fyrir mér hvar uppruni þessa máls er. Af hverju erum við að ræða um breytingar á lögum um landsdóm? Hvers vegna var ákært? Hvaðan kom neistinn sem kveikti í þeirri sprengju? Hver sagði að við skyldum nota gömlu lögin um landsdóm? Hverjum datt eiginlega í hug að nota landsdóm sem hafði sofið rólega að mig minnir í 60 ár? Hverjum datt það í hug? Hvaðan kom neistinn? Af hvaða hvötum kom sá neisti?

Hér hefur því verið haldið fram að þetta séu pólitísk réttarhöld. Það er eflaust rétt, ég tek undir það. Þetta eru pólitísk réttarhöld, en þau eru meira en það. Ég hef grun um að á bak við þau sé reiði, heift og óvild. Það kann aldrei góðri lukku að stýra að blanda slíkum tilfinningum inn í ákæru sem á að vera efnisleg og málefnaleg. Einhvers staðar hefur kviknað sá neisti að nota landsdóm til að ákæra ráðherra í því mikla hafi af reiði sem þá umlék þjóðfélagið. Ég hygg að ekki hafi verið pólitík á bak við það. Ég hygg að það hafi hreinlega verið reiði sem varð til þess að því var hvíslað að nú skyldum við ákæra fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde ásamt með þrem öðrum ráðherrum. Mönnum datt allt í einu í hug að nota þetta gamla fyrirbæri, landsdóm, til þess. Nú erum við að reyna að laga þennan landsdóm þannig að hann sé nokkurn veginn skikkanlega óháður og fullnægi minnstu kröfum sem hægt er að gera um óhlutdrægan dóm, eins og stendur í stjórnarskránni, að allir eigi rétt á að fá mál sín tekin fyrir innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. (Gripið fram í.)

Ég hefði gaman af að vita hvaðan þessi hugmynd kom. Hvar fæddist hún? Ég hugsa að hún sé ekki pólitísk, ekki nema að hluta til. Hún er að miklu leyti tilfinningaleg, sprottin af neikvæðum tilfinningum, reiði og heift, sem ég tel að fólk eigi ekki að láta stjórnast af þegar það ákærir einstakling.