139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

heildarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

675. mál
[16:52]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að segja eins og er að mér finnst ekki veita af því að þetta mál fái að fara til efnislegrar og málefnalegrar umræðu í nefnd þannig að hægt sé að taka málið fyrir út frá efnishlið þess, en ekki út frá því sjónarhorni sem hér er verið að setja fram, sem snýst annars vegar um það að sú sem hér stendur sé að skapa sér eitthvert einræðisvald, sem er fjarri sanni, og verið sé að setja fram tvö ítarleg frumvörp, þykkar bækur, sem séu til þess eins fallin að geta sameinað sjávarútvegs-, landbúnaðar- og iðnaðarráðuneytið. Þetta er bara fjarri öllu sanni. Þess vegna legg ég nú áherslu á það, virðulegi forseti, að málið fái sem fyrst að fara til efnislegrar umræðu í nefnd og fara út til umsagnar. (Gripið fram í.) Það held ég að skipti máli.

Varðandi atvinnuvegaráðuneytið sem er í stjórnarsáttmála — það er best að leggja áherslu á það, að þessi ráðuneyti verði sameinuð — kom fram hér á Alþingi, í nefndaráliti sem var lagt fram um leið og lögð var til sameining á heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytinu og dómsmála- og samgönguráðuneytinu, að meiri hluti legði áherslu á að áfram yrði unnið að undirbúningi og samráði vegna atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Þannig var það orðað. Lögð var áhersla á að þetta færi í samráð milli ýmissa hagsmunaaðila. Það hefur verið gert í þó nokkrar vikur. Því samráði er nú lokið og verið er að ganga frá skýrslu um það samráð. Hún verður tekin til efnislegrar umfjöllunar í ríkisstjórn og við einstaka ráðherra sem mál þetta varðar. Að því loknu verður tekin (Forseti hringir.) ákvörðun um það hvenær atvinnuvegaráðuneytið eða frumvarp um það verður lagt fram eða hvenær það verður stofnað.