139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

heildarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

675. mál
[17:04]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Umræður um stjórnarráðsfrumvarpið og fylgifisk þess, frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna heildarendurskoðunar á lögum um Stjórnarráð Íslands, hafa staðið nokkra hríð og haldnar tugir ræðna og andsvör flutt. Ég ætla að fullyrða, vegna þess að ég hef setið mestan part undir ræðunum, að þær hafa verið málefnalegar. Þegar fjallað er um stórt mál eins og heildarlöggjöf um Stjórnarráð Íslands er að vonum að um það séu skiptar skoðanir. Þess vegna er mjög eðlilegt að umræður fari fram eins og þær hafa gert.

Fljótlega í umræðunni sagði hæstv. forsætisráðherra að hún ætlaði í lok hennar að taka saman þá gagnrýni sem hefði komið fram eins og jafnan er gert þegar ráðherrar mæla fyrir málum sínum, og svara síðan einstökum gagnrýnisatriðum þannig að menn gætu heyrt viðhorf hæstv. ráðherra til sjónarmiðanna sem fram hefðu komið. Hæstv. forsætisráðherra var mjög spör á að taka þátt í andsvörum og ég ætla út af fyrir sig ekki að ásaka hæstv. ráðherra fyrir það. Hún kaus að sitja undir umræðunni og gerði það nokkuð vel en ætlaði síðan að taka saman gagnrýnisatriðin og fara yfir þau í lok umræðunnar.

Ég get að vísu ekki kvartað fyrir mína hönd og annarra vandamanna. Hæstv. ráðherra sýndi mér þann heiður að koma í andsvar við eina af mínum ræðum. En ég tek hins vegar eftir því og finnst ámælisvert að hæstv. ráðherra stóð ekki við að svara því sem fram hefur komið, í efnislegri ræðu í lok umræðunnar. Með þessu háttalagi sýnir hæstv. ráðherra mikla fyrirlitningu á umræðunni sem fram hefur farið. Það getur vel verið að hæstv. ráðherra hafi runnið í skap yfir því að við þingmenn sátum ekki og hlustuðum í andakt og hneigðum höfuð okkar til samþykkis því sem hún sagði. En hæstv. ráðherra verður auðvitað að búa við það að þegar lagt er fram stórt og umdeilt mál sem varðar eina af meginstoðum stjórnskipunar okkar, þ.e. sjálft Stjórnarráð Íslands, er ekki við öðru að búast en um það séu skiptar skoðanir. Þess vegna tel ég að að hálfu hæstv. forsætisráðherra hafi verið algjörlega fráleit framkoma að svara ekki með efnislegri ræðu í lok umræðunnar og fara yfir þau álitamál sem upp voru borin í henni.

Hér komu fram sjónarmið margra stjórnarandstæðinga. Hér komu fram sjónarmið úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Hér komu fram sjónarmið formanns þingmannanefndarinnar. Hæstv. forsætisráðherra hefur verið að klessa þessu máli utan í þingmannanefndina og reynt að gera það að einhverju skilgreindu eða óskilgreindu afkvæmi hennar. Formaður þingmannanefndar Alþingis sjálfur, hv. þm. Atli Gíslason, hefur einfaldlega afbeðið sér þetta. Hann neitar að meðganga þennan króga sem honum er kenndur og er þau frumvörp sem liggja fyrir.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að hæstv. forsætisráðherra sem hefur í gegnum tíðina viljað sýna Alþingi virðingu, gerir það ekki með þessu háttalagi. Vel getur verið að illa standi á hjá hæstv. forsætisráðherra. Ég veit að ríkisstjórnin er í miklu uppnámi. Hér koma kröfur frá einstökum þingmönnum um afsagnir einstakra ráðherra. Allir vita að hæstv. ráðherra er í miklum vanda. Fylgismennirnir hrynja úr þingliði ríkisstjórnarinnar nánast mánaðarlega þessi dægrin. Nú stendur ríkisstjórnin í þeim dapurlegu sporum að vera með minnsta mögulegan meiri hluta. Í raun og veru situr nú að völdum önnur minnihlutaríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur. Mér finnst því vanvirðing við þingið að hæstv. ráðherra kaus að svara hér ekki. Nema hæstv. ráðherra telji ræðurnar bara ekki svaraverðar, hægt sé að velja úr tvær, þrjár og fara í andsvör við þær og ljúka síðan þessari miklu umræðu um Stjórnarráð Íslands með þögninni einni.

Hæstv. ráðherra sagðist hafa beðist velvirðingar á því að frumvarp um atvinnuvegaráðuneyti væri ekki komið fram. Hæstv. ráðherra þarf nú ekki að biðjast afsökunar á því. Allir vita að ekki er hæstv. ráðherra um að kenna að frumvarpið er ekki komið fram. Hæstv. ráðherra er í þeirri stöðu að hún hefur ekki vald á málinu, það eru aðrir í ríkisstjórninni og ríkisstjórnarflokkunum sem ráða þeirri för. Hæstv. ráðherra hefur haft að hugsjón að sameina þessi ráðuneyti, færa stóra málaflokka frá atvinnuvegaráðuneytinu til einhvers umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Um þetta er þvílíkur ágreiningur í stjórnarliðinu að hæstv. forsætisráðherra ræður ekki við að leggja frumvarpið fram. Því segi ég: Hæstv. forsætisráðherra þarf ekki að sýna þá auðmýkt að biðjast afsökunar á því að hafa ekki komið fram með frumvarpið, það er einfaldlega ekki á hennar valdi að gera það nema hún ætli að kjósa þá leið sem er stundum farin núna í ríkisstjórnarsamstarfinu, að leggja bara fram frumvarp hvað sem einstakir ráðherrar tauta eða raula.

Ég vil því að gefnu tilefni spyrja hæstv. forsætisráðherra eins og ég spurði í 1. umr. málsins: Hvenær má vænta frumvarpsins? Verður það fyrir þinglok í vor? Þinginu lýkur í byrjun júní. Má vænta þess að frumvarpið komi fram þá og verði stjórnarfrumvarp?

Aðeins um það merka hugtak, stjórnarfrumvarp. Hæstv. ráðherra hefur leitað sér stuðnings í stjórnarskránni til að reyna að finna eitthvert hugtak sem hún getur stuðst við varðandi stjórnarfrumvarpið. Hæstv. forsætisráðherra þarf að svara skýrar. Ég spurði í ræðu í gær eða fyrradag við hvað væri átt. Hvað þarf marga ráðherra til að hæstv. forsætisráðherra telji að þetta sé stjórnarfrumvarp? Er ekki líka komin upp algerlega ný staða í málinu? Er staðan ekki sú núna að málið sem við vorum að ljúka umræðu um og raunar einnig þessi mikli bandormur, hefur ekki raunverulegan stuðning nema ef vera skyldi úr þingliði Samfylkingarinnar? Samfylkingin hefur að minnsta kosti ekki enn komið fram og reifað efasemdir um málið. Ég tók eftir því að einn hv. þingmaður úr Samfylkingunni, utan hæstv. forsætisráðherra, hafði kjark til að ræða það. Annar hafði kvatt sér hljóðs við lok umræðunnar en kaus að draga sig út úr umræðunni af einhverjum ástæðum. Kannski vegna þess að hæstv. forsætisráðherra er orðin óróleg. Hæstv. forsætisráðherra liggur á að koma málinu til nefndar eftir því sem hún segir sjálf.

Hæstv. forsætisráðherra fór síðan út á mjög hála braut. Hún fór að tala um samráð. Nú skulum við tala saman. Ég hef einmitt tekið þátt í því samráði sem ég fram undir þetta taldi að væri það best heppnaða sem efnt hefði verið til af hálfu hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. ríkisstjórnar. Ég tók þátt í hinni miklu sátta- og endurskoðunarnefnd á sviði sjávarútvegsmála. Sú nefnd starfaði í 18 mánuði og vann mjög vel efnislega. Hún var undir forustu tveggja mjög öflugra þingmanna stjórnarliðsins og annar þeirra er reyndar orðinn hæstv. velferðarráðherra í dag. Nefndin komst að nær samhljóða niðurstöðu í erfiðu deilumáli. En hvað hefur gerst síðan? Í átta mánuði hefur verið unnið að því leynt og ljóst innan ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna að gera sem minnst úr því samráði, reyna að eyðileggja niðurstöðuna og skrumskæla hana á alla vegu. Ég verð að segja: Þetta er auðvitað ekki samráð. Nú áttar maður sig á að nákvæmlega sama er að gerast varðandi atvinnuvegaráðuneyti. Það vantar svo sem ekki að fundir séu haldnir og fólk kallað til og hlutir sendir út og suður. En ef eitthvað á að vera að marka samráð verðum við að geta vænst þess að mark sé tekið á niðurstöðum mála.

Margoft hefur komið fram, sem er auðvitað megingagnrýnin í umræðunni fram til þessa, að frumvarpið felur í sér grundvallarbreytingu á fyrirkomulaginu í Stjórnarráði Íslands. Ég rakti nokkuð í ræðum áður og kom inn á það í síðustu ræðu minni um frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands. Árið 1969 voru sett ný stjórnarráðslög, mjög að gefnu tilefni. Eins og hæstv. forsætisráðherra veit örugglega ekki síður en ég höfðu fram að því viðgengist margs konar vinnubrögð við myndun ríkisstjórna sem menn töldu að væru hvorki góð né æskileg. Ýmsir gamlir ráðherrar hafa sagt sögur af því hvernig háttaði til þegar ríkisstjórnir voru myndaðar. Þegar komið var að örlagastundu og skrifa þurfti undir stjórnarsáttmála kom kannski fram einhver gírugur ráðherra sem ákvað allt í einu að setja stólinn fyrir dyrnar og sagði: Ég tek ekki þátt í þessu né minn flokkur nema til okkar verði skákað einhverjum embættum eða verkefnum. Síðan var það gert meira og minna skipulagslaust og ákveðið að taka eitt verkefni og færa yfir o.s.frv.

Nú má kannski segja að í lagi sé með fyrirkomulagið eins og það var fyrir árið 1969 ef í stóli situr forsætisráðherra sem vill fara varlega með vald sitt. Einhver gæti t.d. sagt að núverandi hæstv. forsætisráðherra færi svo varlega með vald sitt að hún beitti aldrei hótunum til að ná fram málum sínum. En þetta snýst ekki um einstakar persónur. Við viljum auðvitað hafa ákveðna formfestu. Var ekki krafa um aukna formfestu eitt af því sem kom fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis? Hæstv. forsætisráðherra kaus meira að segja í andsvörum áðan, og mér fannst það dálítil ósvífni, að frumvarpið leiddi til aukinnar formfestu og vitnaði í einhver önnur óskyld ákvæði í frumvarpinu. Blasir ekki við hverjum manni að þegar búið er að ákveða að taka í burtu það form á Stjórnarráðinu sem gert er ráð fyrir í stjórnarráðslögum í dag og setja upp — ja, bara autt blað sem er lagt fyrir hæstv. forsætisráðherra til að krota á, að það sé ekki til marks um mikla formfestu? Hæstv. forsætisráðherra á hverjum tíma getur farið yfir hvíta blaðið, auða blaðið, með tússpenna sínum og strikað út og skrifað inn á eins og hann lystir. Hér er verið að opna þá heimild. Þetta er ekki mjög flókið, forsætisráðherra hefur þetta vald. Í raun er verið að stæra sig af því á bls. 39 í athugasemdakaflanum við málið að verið sé að hverfa frá því að telja upp ráðuneytin með tæmandi hætti og ákvörðunarvaldið sé beinlínis lagt í hendur ráðherranna, ríkisstjórnarinnar og hæstv. forsætisráðherra.

Ég ætla í lokin, a.m.k. formsins vegna, að koma sérstaklega að þeim mikla bandormi sem fyrir okkur hefur verið lagður. Ég rakti í ræðu á dögunum að þetta mikla frumvarp væri lengsta uppsagnarbréf Íslandssögunnar og kannski heimssögunnar, uppsagnarbréf til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra upp á 138 blaðsíður. Nú verð ég að biðjast velvirðingar því þau eru fleiri, þetta er ekki bara eitt uppsagnarbréf heldur tvö. Annað er 138 blaðsíður en frumvarpið hér, hitt uppsagnarbréfið, er í 545 efnisgreinum. Ég tek eftir því að í því mikla frumvarpi er ekki einu sinni látið svo lítið að skrifa eitt orð í athugasemdir. Ber að líta svo á að ekki sé um að ræða sjálfstætt frumvarp? Ekki taki því að eyða á það orðum og útskýra á einhvern hátt? Þó ræðum við þetta mál sérstaklega. Hæstv. forsætisráðherra óskaði að vísu eftir því á sínum tíma að það yrði rætt í viðhengi við stóru bókina, stóra uppsagnarbréfið, en því var hafnað af Alþingi. Nú ræðum við frumvarp þar sem ekki getur að líta einn stafkrók í athugasemdum um það.

Ég hef stundum sagt þegar við lesum svona bandorma að mikil guðsblessun er yfir því mikla leitarforriti, Google. Ef það væri ekki til óttast ég að jafnvel fundvísir, duglegir starfsmenn ráðuneytanna gætu ekki grafið upp 545 greinar til að breyta, svo sem eins og breytingu á lögum um útflutning hrossa sem hér má m.a. sjá í breytingarfrumvarpi þessu. (Gripið fram í.) Ég tala nú ekki um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins sem var lagður niður fyrir ábyggilega áratug síðan. Þetta mál er auðvitað allt saman með ólíkindum. Hæstv. forsætisráðherra hvatti að vísu til þess að málið færi til nefndar til frekari skoðunar. Það er held ég það viturlegasta sem hæstv. ráðherra hefur sagt, því auðvitað þarf mjög að skoða það. Kannski hefði ekki veitt af því (Forseti hringir.) að skoða það betur áður en það var lagt fram.