139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

heildarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

675. mál
[17:23]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Það samráð sem hæstv. forsætisráðherra vitnar til að hafi verið haft um þetta mál og er greint frá í frumvarpinu á bls. 6, að mig minnir, var mest innan veggja Stjórnarráðsins, meðal embættismanna og fólks innan stjórnsýslunnar. Það hefur verið mikið gagnrýnt enda virðist rauði þráðurinn, m.a. hjá hæstv. innanríkisráðherra og í umræðunni undanfarna tvo daga, og grundvallarbreytingin vera sú að færa vald frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins. Það virðist hafa verið hugsunin í þessu. Þegar maður grípur niður í skýrslu sem kom út í maímánuði 2010 segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Að bæta þurfi vinnubrögð og starfsaðstöðu hinnar pólitísku forustu framkvæmdarvaldsins. Þannig þurfi að skerpa á forustuhlutverki forsætisráðherra í ríkisstjórn og skapa markvissari umgjörð í lögum og eftir atvikum í stjórnarskrá, …“

Þetta er mjög skýrt og ekki óeðlilegt að frumvarp sem þetta sé byggt á slíkum gögnum. En er þetta ekki einmitt þvert á það sem rætt hefur verið eftir bankahrunið um að mikilvægt væri að fletja út valdapýramídann og auka valddreifingu fremur en að búa til einhvern foringja á toppnum sem öllu stýrði?

Ef raunverulegt samráð hefði verið um þetta mál áður en það var lagt fram, er þá ekki trúlegt að frumvarpið hefði aldrei orðið eins og það er núna? Ef haft hefði verið samráð við til að mynda fleiri alþingismenn, fólk úti í samfélaginu, hagsmunasamtök og félagasamtök, er þá ekki trúlegt að menn hefðu komist að þeirri niðurstöðu að þetta frumvarp (Forseti hringir.) og afleiðingar þess gengju þvert á það sem lagt hefur verið til á hinu nýja Íslandi?