139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

heildarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

675. mál
[17:25]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þarf ekkert að deila um að ekki er verið að boða nýtt Ísland. Þetta er gamla Ísland, Ísland um miðbik 20. aldar þegar menn treystu sér ekki til að halda áfram og breyttu stjórnarráðslögunum 1969. Það er verið að taka upp gamla Ísland, Ísland hrossakaupanna í miklum meiri mæli en nokkru sinni áður.

Hv. þingmaður vekur athygli á því að talað sé um það á einhverri blaðsíðu í frumvarpinu að haft hafi verið samráð innan Stjórnarráðsins. Það væri fróðlegt að vita hvernig það samráð var. Liggur t.d. fyrir hvort þeir sem þekkja best til í Stjórnarráðinu, ég tek sem dæmi skrifstofustjórar eða ráðuneytisstjórar eða aðrir starfsmenn sem hafa starfað þar lengi og hafa góða yfirsýn yfir Stjórnarráðið, hafi þennan einbeitta vilja og áhuga á að haga málum þannig að horfið sé til baka til ársins 1950 varðandi skipan Stjórnarráðsins, eins og fyrirkomulagið var þá? Ég er ekki viss um að þetta sé vilji þess hóps, enda skiptir það örugglega engu máli. Það skiptir engu máli hvað menn hafa sagt á svona fundum eða í könnunum sem gerðar hafa verið. Það yrði ekki mikið gert með það frekar en fyrri daginn þegar kæmi að samráði.

Sagt er að frumvarpið sé svo óskaplega lýðræðislegt, að verið að fletja eitthvað út o.s.frv. En bíðið við, nú á að koma því fyrirkomulagi á að ekki verði lengur lögbundið hvernig ráðuneyti verði skipað, ætli þurfi þá ekki alvöru pólitíska forustu í það? Ætli þurfi ekki alvöru pólitíska forustu til að takast á við slík verkefni? Eða eru menn að segja að ofan í algjört stjórnleysi við skipan ráðuneyta þurfi engin pólitísk forusta að vera fyrir hendi? Þetta gengur ekki upp. Eitt rekur sig á annars horn. Það sjá allir.