139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

heildarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

675. mál
[17:30]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það segir náttúrlega alla sögu um forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar að þetta mál sé komið fram og verið sé að ræða það við svo háskalegar aðstæður sem við búum við núna. Við vitum að ríkisstjórnin logar stafnanna á milli. Við vitum að undanfarin dægur hafa staðið yfir kjarasamningar og á lokastigi verið gert ráð fyrir verulegri þátttöku og aðkomu ríkisstjórnarinnar, og hæstv. forsætisráðherra auðvitað þar með, að því máli. Hæstv. forsætisráðherra hefur hins vegar talið brýnast af öllu við þessar aðstæður að mæla fyrir þessu frumvarpi og eftir atvikum taka þátt í umræðum um það. Hæstv. ráðherra hefur a.m.k. sýnt þinginu þá virðingu að sitja undir þessari umræðu mestan part og það bera að þakka. Ég vek athygli á því að þetta er forgangurinn. Það fer ekkert á milli mála hvernig forgangsverkefnum er raðað hjá ríkisstjórninni.

Hv. þingmaður sagði að Stjórnarráðið hefði verið undirlagt í vinnu við að tína til þessar 546 greinar. Ég vakti athygli á því að það væri sennilega hinn ötuli starfsmaður forsætisráðuneytisins, leitarforritið Google, sem hefði séð um það enda efast ég um að jafnvel hinn samviskusamasti og fundvísasti starfsmaður ráðuneytanna hefði getað grafið upp allar þessar greinar ef þess forrits hefði ekki notið við.

Ég sagði í ræðu á dögunum að ég vildi láta hæstv. forsætisráðherra njóta nokkurs vafa og sagði að við skyldum ræða hugmyndina sem býr að baki 2. gr. Það hafa hins vegar ekki komið nein rök fyrir því af hálfu hæstv. forsætisráðherra enda kaus hún að svara því engu í lokaræðu um þetta mál, eins og ég vakti athygli á, sem er reginhneyksli og sýnir fyrirlitningu ráðherrans gagnvart þinginu, að ljúka ekki umræðu um svo stórt mál með því að svara efnislega í ræðu heldur láta stopul andsvör nægja við ræðum (Forseti hringir.) einstakra þingmanna.