139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

heildarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

675. mál
[17:34]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er verið að opna fyrir allar slíkar heimildir með þessu frumvarpi. Þetta er galopin heimild sem veitt er framkvæmdarvaldinu og hæstv. forsætisráðherra sérstaklega og gefur möguleika á ýmiss konar misnotkun.

Við erum stundum fljót að gleyma og svolítið löt að læra af sögunni. Við erum mjög upptekin af því sem gerðist í hruninu. Nú er varla lagt fram frumvarp af hálfu hæstv. ríkisstjórnar öðruvísi en að sagt sé að það sé svar við hruninu. Síðan þegar þeir sem hafa kannað þau mál hvað best í þinginu, fulltrúar úr þingmannanefnd Alþingis, bæði hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir og hv. þm. Atli Gíslason, skoða þetta frumvarp í samhengi við vinnu sína í þingmannanefndinni þá kannast þau ekki við eitt né neitt. Væri ekki miklu eðlilegra að skoða reynsluna af því fyrirkomulagi sem verið er að boða? Menn höfðu reynslu af þessu fyrir árið 1969. Menn lærðu af þeirri reynslu. Niðurstaða ráðherra í ríkisstjórn og Alþingis þá var að skynsamlegra væri að setja meiri formfestu í kringum þetta. Auðvitað mun Stjórnarráðið síðan þróast eins og annað í tímans rás með breyttu samfélagi.

Gerðar voru breytingar á Stjórnarráðinu við myndun ríkisstjórnar 1970. Það var ekki óumdeilt mál. Ég tel að það hafi mestan part verið skynsamlegt, ekki að öllu leyti. Um frumvarp á Alþingi, sem mælt var fyrir haustið 2007, varð mikil umræða og síðan fór málið í fagnefndir Alþingis þannig að Alþingi hafði mjög góðan tíma og möguleika á að setja sig inn í þær breytingar og forsendurnar fyrir þeim. Ítarleg nefndarálit komu frá meiri hluta og minni hluta þar sem var farið yfir meginsjónarmið. Það er miklu eðlilegra fyrirkomulag en gera það með þessum hætti því að enginn veit hvernig framkvæmdin (Forseti hringir.) verður á þessu — hún er bara auður pappír eins og svo margt annað sem snýr (Forseti hringir.) að þessu máli.