139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

heildarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

675. mál
[19:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka aftur til máls en mátti til eftir að hv. þm. Birgir Ármannsson benti á plagg sem hefur greinilega farið fram hjá mér og var unnið í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu í janúar og tengist Evrópusambandsumsókninni og því ferli, sem er reyndar alltaf betur og betur að koma í ljós að er ekkert annað en aðlögun að regluverki og stofnunum Evrópusambandsins. Í þessu plaggi kemur fram á bls. 57 það sem kallað er 3.1.5 og fjallar um sameiningu ráðuneyta og þýðir fyrirsögnin í rauninni „miklar skipulagsbreytingar“ en þær felast í því, eins og sagt er í þessu plaggi, að sameina eigi ráðuneyti iðnaðar, sjávarútvegs og landbúnaðar. Það er reyndar líka talað um að verið sé að útbúa frumvarp um sjávarútveginn.

Við þekkjum tilurð draga að ályktun sem sameiginleg þingmannanefnd Evrópusambandsins og Íslands ætlaði að taka fyrir en gerði ekki vegna íslenskra stjórnarandstöðuþingmanna. Þar er einnig er talað um sameiningu þessara ráðuneyta. Ég fagna í sjálfu sér því að efnahags- og viðskiptaráðuneytið hafi strax í janúar tekið af skarið og sagt hlutina eins og þeir eru. Þessi sameining ráðuneyta og það frumvarp sem hér um ræðir, sá hluti þess sem lýtur að því að einfalda slíka sameiningu, er að sjálfsögðu ekkert annað en liður í aðlögun Íslands að Evrópusambandinu.

Það er merkilegt að forsætisráðherra og jafnvel einstakir þingmenn — vel á minnst, frú forseti, er hæstv. forsætisráðherra í húsinu?

(Forseti (ÁI): Hæstv. forsætisráðherra er í húsi og heyrir mál þingmanna.)

Takk fyrir það. Ég geri þá ráð fyrir, frú forseti, að hæstv. forsætisráðherra komi þegar síðasta ræða er búin og dragi saman þá umræðu sem hér hefur verið og svari þeim spurningum sem til hennar hefur verið beint. Í málinu sem við ræddum fyrr var slíkt ekki gert og þykir mér það ekki gott gagnvart þingmönnum.

Frú forseti. Við höfum nú fengið það upp á borð að í janúar sl. gaf efnahags- og viðskiptaráðuneytið út skýrslu varðandi inngönguna í Evrópusambandið og af fyrirhugaðri sameiginlegri yfirlýsingu þingmannanefndarinnar er ljóst að breytingar á ráðuneytunum eru liður í því að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Frú forseti. Ég skora á þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að rifja upp ræður og atkvæðagreiðslur frá árinu 2007 þegar þeir greiddu atkvæði með þingmönnum Framsóknarflokks á móti því að ráðast í breytingar sem voru öllu veigaminni en þær sem hér er ráðist í. Ég er búinn að kynna mér nokkrar ræður sem haldnar voru þá. Margt merkilegt er þar að líta sem ég held að hljóti að verða rifjað upp þegar við köfum ofan í þetta mál. Vinstri hreyfingin – grænt framboð getur ekki látið það spyrjast um sig að hleypa málinu í gegn miðað við fyrri málflutning og í ljósi þess að þetta frumvarp er nátengt og beinlínis afleiðing af því ferli sem hafið er varðandi inngöngu eða aðlögun að Evrópusambandinu.

Frú forseti. Ég er ekki viss hve margir eru enn á mælendaskrá en ég óska eftir því að hæstv. forsætisráðherra komi og ljúki þessu máli eins og venja er með því að draga það saman og svara þeim spurningum sem til hennar hefur verið beint.