139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

sala fasteigna, fyrirtækja og skipa.

699. mál
[20:45]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa á þskj. 1218. Í frumvarpinu er lagt til að gjaldtöku eftirlitsgjalds fasteignasala verði frestað til ársins 2012.

Í 2. mgr. 19. gr. laga nr. 99/2004, um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, er kveðið á um skyldu fasteignasala til að greiða árlegt eftirlitsgjald til að standa straum af kostnaði við störf eftirlitsnefndar Félags fasteignasala. Kostnaður við eftirlit með störfum fasteignasala hefur reynst mun lægri en áætlað var auk þess sem fasteignasölum fjölgaði mikið á tímabili. Hefur því myndast nokkur innstæða í sjóði vegna eftirlitsgjaldsins og af þeim sökum var eftirlitsgjaldið ekki innheimt á árunum 2009 og 2010.

Í frumvarpi til nýrra heildarlaga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa sem lagt var fram á 138. löggjafarþingi voru lagðar til breytingar á eftirlitsgjaldinu. Meðal annars var lagt til að eftirlitsgjaldið yrði lækkað og væru fleiri en einn fasteignasali starfandi á starfsstöð yrði eingöngu greitt eitt gjald. Frumvarpið hlaut ekki afgreiðslu en vinna við frumvarp til nýrra heildarlaga hefur haldið áfram og er gert ráð fyrir að frumvarp til nýrra heildarlaga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa verði lagt fram í upphafi næsta þings. Því var farin sú leið að flytja sérstaka breytingartillögu um þetta tiltekna atriði hér.

Ég mælist til þess, virðulegi forseti, að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar.