139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

málefni lífeyrissjóða.

[14:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ákvæðið í lögunum er til bráðabirgða og gildir fyrir árið 2010. Það ár er liðið þannig að menn þurfa núna að fara að taka á þessum vanda A-deildarinnar sem er þó einn yngsti lífeyrissjóður landsins og er samt kominn í þessi vandræði. Hann er með 47 milljarða umfram eignir í skuld.

Við þurfum að fara að taka á B-deildinni og alla vega að taka eftir henni þannig að hún detti ekki allt í einu yfir okkur þegar eignin er búin.

Varðandi það hvernig við ætlum að útvega lífeyrissjóðunum fóður: Mér finnst að ríkisstjórnin hafi ekkert unnið í því að koma skuldum fyrirtækja á hreint, koma fyrirtækjunum á eðlilegan rekstrargrunn þannig að þau geti borgað 3,5% vexti. Hæstv. ráðherra svaraði því ekki, sennilega vegna tímaleysis, hvað hann ætlar að gera ef við náum ekki 3,5% vaxtaviðmiðuninni og þurfum að fara að hækka iðgjöld, lækka lífeyri eða hækka ellilífeyrisaldur.