139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála.

773. mál
[17:09]
Horfa

Flm. (Björn Valur Gíslason) (Vg):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um brottfall laga um flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála. Flutningsmenn að þessu frumvarpi ásamt þeim sem hér stendur eru hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson, Ólína Þorvarðardóttir, Róbert Marshall, Árni Johnsen, Guðmundur Steingrímsson og Ásbjörn Óttarsson.

Í 1. gr. laganna er kveðið á um að lög um flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála, með síðari breytingum, falli úr gildi.

Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að lög þessi öðlist gildi frá og með 18. maí 2011.

Frumvarp þetta er flutt af nefndarmönnum í samgöngunefnd Alþingis. Frumvarp sama efnis var lagt fyrir Alþingi 17. janúar á þessu ári og lagði samgöngunefnd til í nefndaráliti, dags. 23. mars, að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt. Vegna anna var 3. umr. um málið ekki sett á dagskrá fyrr en 12. apríl sl. en enginn tók til máls við það tilefni. Í kjölfarið kom í ljós að ekki hafði gefist ráðrúm til að breyta gildistökuákvæði frumvarpsins en dagsetning gildistöku var þá liðin. Þar sem 3. umr. hafði farið fram var ekki fært að breyta gildistökuákvæði með samþykkt breytingartillögu. Í því ljósi er frumvarp þetta lagt fram með þeim breytingum sem nauðsynlegar verða að teljast.

Að mínum mati hefur málið þegar fengið fullnægjandi og góða umfjöllun í samgöngunefnd. Nefndin afgreiddi málið frá sér á sínum tíma einum rómi með nefndaráliti, eins og áður hefur komið fram, þar sem lagt var til að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt og því tel ég ekki þörf á að vísa málinu til samgöngunefndar.