139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

mannréttindi samkynhneigðra í Úganda.

[11:00]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ísland er ríki sem virðir mannréttindi og er forusturíki þegar kemur að mannréttindum samkynhneigðra. Í Úganda hefur samkynhneigð verið ólögleg frá árinu 2000 en síðustu tvö árin hafa samkynhneigðir búið við stöðugan ótta vegna frumvarps sem varðar dauðarefsingu við samkynhneigð og hefur komið inn og farið út úr úganska þinginu. Nýlega var helsti baráttumaður samkynhneigðra í Úganda drepinn, David Kato, en tilvist frumvarpsins hefur valdið vaxandi ofsóknum í garð samkynhneigðra í Úganda.

Mig langar til að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvernig hún telji að ríkisstjórn Íslands og íslensk stjórnvöld geti beitt sér til að stuðla að mannréttindum samkynhneigðra í Úganda. Þrátt fyrir að þetta frumvarp sem lá inni í þinginu til Úganda hafi verið dregið til baka hefur flutningsmaður þess, David Bahati, tilkynnt að hann muni leggja það fram aftur. Staðan er sú í ríki sem Ísland hefur veitt yfir milljarð í þróunaraðstoð á síðustu fjórum árum, þróunaraðstoð sem á að stuðla að mannréttindum í þeim ríkjum sem verið er að aðstoða, búa samkynhneigðir við þann ótta að geta átt von á dauðarefsingu fyrir það að vera samkynhneigðir, sem sagt fyrir það að vera til.

Þess vegna spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Hvað telur þú að ríkisstjórnin og íslensk stjórnvöld geti gert til að styðja samkynhneigða í mannréttindabaráttu þeirra?