139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[12:30]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi andsvar hv. þingmanns þá er það auðvitað svo að meðferð aflandskrónanna er flóknasta viðfangsefni áætlunarinnar um afnám gjaldeyrishafta. Ef ekki væri fyrir aflandskrónustöðuna væri auðveldara að fikra sig áfram í afnámi hafta á innlenda aðila.

Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að ekki sé gert ráð fyrir útgönguskatti í tillögunni af tillitssemi við erlenda fjármagnseigendur. Það er gert ráð fyrir útgönguskatti en á síðari stigu áætlunarinnar vegna þess að stærð aflandskrónueignarinnar í hlutfalli við gjaldeyrisforðann er svo gríðarleg að það væri mjög sérkennileg ríkisvæðing á aflandskrónuvandanum að fara strax í það að borga erlendum fjármagnseigendum eignirnar út. Þess vegna er gert ráð fyrir því að reyna með öðrum hætti að tappa af eignastöðunni fyrst og síðar verði farið í útgönguskatt þegar búið er að tappa af stöðunni annars vegar í skiptiútboðum og hins vegar í því að finna aflandskrónueigninni stað í innlendri fjárfestingu til að greiða fyrir fjölgun atvinnutækifæra í landinu og einungis þá komi til útgönguskatts. Vandinn er einfaldlega stærri en svo að auðvelt sé að ráðast beint í útgönguskattinn. Það er ekki af neinni tillitssemi við erlenda fjármagnseigendur, það er beinlínis gert ráð fyrir útgönguskattinum í áætluninni að undangengnum þessum fyrstu þáttum í áætluninni. Hversu vel nákvæmlega gengur að ná fullnægjandi árangri er erfitt að spá en þess vegna gerir áætlunin ráð fyrir að farið verði í þetta í þrepum.