139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[17:10]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér gerðust alvarlegir atburðir í lok búsáhaldabyltingarinnar, um það er ekki deilt. Það voru mjög alvarleg átök á svæði Alþingishússins og við Alþingishúsið. Ég er ekki að saka þann hv. þingmann eða hv. þingmenn sem ég er tala til í þessu máli um að þeir hafi verið að beita einhvers konar ofbeldi. En það að hvetja til ofbeldis, (Gripið fram í.) það að hvetja til ákveðinna mótmæla og jafnvel ofbeldis, menn geta þá túlkað það, þá skoðun sem liggur í þeim orðum að hv. þingmönnum hafi fundist það vera í góðu lagi að mótmælendum yrði hleypt hér inn í húsið og brytu hér allt og brömluðu af því að þetta væru hvort eð er bara dauðir hlutir. Það eru nákvæmlega ummælin sem féllu, með þessum orðum (Forseti hringir.) alveg eins og þau eru sögð. Ég verð að segja það alveg eins og er, virðulegi forseti, ég átti ekki orð til.