139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

meðferð einkamála.

568. mál
[17:59]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég fagna því sérstaklega að þetta mál er komið á dagskrá og skora eindregið á hv. allsherjarnefnd að afgreiða það áður en þingið fer í sumarhlé.

Mig langar að spyrja hv. þm. Álfheiði Ingadóttur hvort hún geti lagt mat á hvaða hópum eða hvernig málum þessi útvíkkun laganna frá 1991 gæti best þjónað. Ég þekki það af eigin raun að hafa þurft að fá gjafsókn út af máli sem ég í raun og veru varð að sækja og er afar persónulegt en ég ætla ekki að fara út í það, en þetta er gríðarlega mikilvæg leið fyrir fólk sem hefur annars ekki tök á að sækja mál. Stundum eru ákvæði í lögum þannig að mönnum er skylt að sækja þau eins og t.d. í tilviki mannshvarfa.