139. löggjafarþing — 125. fundur,  17. maí 2011.

beiðni um opinn nefndarfund.

[14:38]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þær athugasemdir sem hér hafa komið fram frá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni og Sigurði Inga Jóhannssyni um að okkur hafi ekki borist svar við fundarbeiðni okkar. Hv. formaður nefndarinnar segir að hún hafi svarað þessu í tölvupósti en okkur hefur ekki borist það svar enn alla vega, en okkur barst svar frá hv. varaformanni nefndarinnar, hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, þar sem hún taldi ekkert tilefni til að ræða þetta mál af því að ekki væri búið að leggja það fram í þinginu.

Nú er það svo, virðulegi forseti, að málið hefur verið kynnt öllum hagsmunaaðilum. Það hefur verið kynnt stjórnarandstöðuflokkunum og það hefur verið afgreitt í gegnum þingflokkana. Það er reyndar með ólíkindum að það skuli ekki vera borið upp í þinginu. Mér vitanlega er ekki búið að ræða neitt hvenær málið verður tekið á dagskrá. Málið er viðkvæmt og snertir mikla og alvarlega hagsmuni í samfélagi okkar og því full ástæða fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að taka það til skoðunar (Forseti hringir.) og fá hagsmunaaðila ásamt öðrum sem eðlilegt er að fá til að tjá sig um málið á opinn fund nefndarinnar. Við óskum eftir því (Forseti hringir.) að við þeirri beiðni verði orðið sem allra fyrst.