139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

sjúkratryggingar.

784. mál
[16:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að vera langorður. Eins og hér kom fram er um að ræða eina málsgrein sem gefur heimild til að fara þá leið sem hér er lögð til. Svo er aðalefnið í drögum að reglugerð sem er mjög til fyrirmyndar að höfð sé með frumvarpinu. Það er spurning, ef hæstv. ráðherra kemur hér upp á eftir, hvort hv. heilbrigðisnefnd sé heimilt að gera tillögur um breytingar á reglugerðinni líka því að það gætu komið í ljós einhverjar breytingar sem menn vildu gjarnan sjá þar.

Það sem einkennir íslenskt greiðsluþátttökukerfi er í fyrsta lagi það að í lyfjum borgar einstaklingurinn að meðaltali þriðjung af kostnaðinum og í kerfinu í heild sinni borgar hann 17%. Þessar breytingar sem og þær breytingar sem fyrirhugaðar voru áður áttu ekki að breyta heildarkostnaðinum í kerfinu heldur eingöngu að skipta kostnaðinum milli hinna sjúku. Þeir sem eru sjaldan sjúkir mundu þannig borga meira en hinir sem eru oft og mikið og lengi sjúkir mundu borga hlutfallslega minna en í dag, en eins og ég kom inn á áðan geta þeir þurft að borga mjög mikið í dag.

Kerfið er óskaplega flókið og ég sé ekki að þetta frumvarp einfaldi það endilega, ég á reyndar eftir að fara í gegnum það. Eftir sem áður verða gefin út lyfjaskírteini og greiðsluþátttakan miðast við að menn borgi fyrstu 22.500 kr. á 12 mánaða tímabili að fullu en 15% af því sem umfram er allt að 90 þús. kr., en þá eru þeir komnir upp í um 32 þús. kr. þegar lyfin kosta 90 þús. kr. Síðan borga menn 7,5% af því sem umfram er og eiginlega ótakmarkað en þó er ákvæði í einhverri grein hér í reglugerðinni að fari kostnaðurinn yfir 64.875 kr. vegna mikillar varanlegrar og læknisfræðilega vel rökstuddrar þarfar fyrir lyf skuli heimilt að takmarka við þá upphæð. Reyndar er ekki sagt hvernig það yrði gert, hvort þá yrði gefið út lyfjaskírteini sem stöðvar frekari greiðslur, þar sem menn fái frekari lyf ókeypis.

Þetta er gott og vel. Þetta er nokkurn veginn danska og norska kerfið í hnotskurn og hefur kosti og galla. Eins og ég gat um byrjar það að tikka eins og danska kerfið frá þeim tíma sem menn borga fyrst lyf og síðan í 12 mánuði á eftir. Venjulegt fólk kaupir lyf reglulega þannig að menn borga upp að 22 þús. kr. að fullu og síðan 15% af því sem umfram er, en það getur líka gerst að menn noti einhver smályf, eitthvað ómerkilegt, 2 þús. kr. eða 1 þús. kr., og þá byrjar tímabilið að tikka og síðan geta menn lent í miklum kostnaði, eins og ég gat um áðan, í lok tímabilsins og í framhaldinu inn í næsta tímabil. Þá getur komið til mjög mikill kostnaður á stuttum tíma sem okkur var bent á í Danmörku að væri fylgifiskur þessa kerfis. En menn þurfa bara að horfast í augu við að þannig sé það og hugsanlega má þá koma með einhverja greiðsludreifingu.

Svo erum við með félagsleg atriði sem alltaf flækja kerfin óskaplega. Litið er á öll börn sem einn einstakling og það er ekki nógu sniðugt. Í því kerfi sem við hugleiddum átti barn að fylgja öðru hvoru foreldrinu. Þá var hugsunin sú að litið yrði á barnið og foreldrið sem einn einstakling og það nyti þeirra hámarka sem væru í gildi og allt slíkt, það var sem sagt mjög barnvænt. Hér er þetta ekki mjög barnvænt fyrir eitt barn vegna þess að það kemur eins og einn einstaklingur og þess vegna getur fjölskyldan lent í því að borga 67 þús. kr. á 12 mánaða tímabili fyrir alla þrjá einstaklingana. Hins vegar minnkar kostnaðurinn mjög hratt ef börnin eru fleiri en eitt, þ.e. börnin eru þá betur tryggð. Það er sem sagt mjög gott að fá þessa reglugerð og geta stúderað hana.

Hér er líka talað um það þegar menn nota mikið af lyfjum og það er náttúrlega hlutur sem landlæknir og heilbrigðisyfirvöld ættu að taka virkilega á. Ef læknir ávísar lyfjum á mann sem hefur fengið lyf hjá öðrum lækni og læknirinn veit ekkert af því að hann er á þeim lyfjum getur það hreinlega verið stórhættulegt vegna þess að það getur verið gagnvirkni á milli lyfja sem er lífshættuleg. Ég held að það sé full ástæða til að rafræna lyfjaskrá verði tekin upp og að læknir sem fær sjúkling í heimsókn til sín geti á augabragði séð öll þau lyf sem maðurinn hefur verið að taka undanfarið til að koma í veg fyrir slíka víxlverkun, sem eins og ég gat um getur verið hættuleg af því að lyf hafa alls konar aukaverkanir og þær aukaverkanir geta spólast upp ef menn taka mismunandi lyf og læknirinn veit ekki af því. Hins vegar hefur þetta ósköp lítið með greiðsluþátttökuna að gera í sjálfu sér nema menn ætli að nota greiðsluþátttökuna þannig að sjúkrastofnun geti neitað að greiða lyf ef fjöldi þeirra verður mjög mikill.

Nú er það þannig að fólk borgar alls konar kostnað. Það fer í blóðrannsókn, það fer í röntgenmyndatöku, það fer í segulómtæki, ég veit ekki hvað þau heita öll þessi tæki sem notuð eru í dag og mörg hver undratæki, og alls staðar er borgað, menn eru alltaf að borga hér og þar. Svo þurfa menn hjálpartæki, hjólastól, göngugrind eða eitthvað slíkt og allt kostar þetta og alls staðar er verið að borga. Þetta er eiginlega gallinn við það að taka bara einn þátt út eins og lyfin að menn eru enn þá óvarðir fyrir samspili margra þátta. Til dæmis borga krabbameinssjúklingar ekki fyrir sín lyf, sem eru óskaplega dýr eða geta verið mjög dýr, en hins vegar fyrir hverja einustu heimsókn til læknis o.s.frv., blóðrannsókn og annað slíkt, það kostar allt eftir óskiljanlegum reglum. Það var samdóma álit allra sem nefndin ræddi við á sínum tíma að kerfið væri alveg á mörkum þess að þola lengur flækjustigið. Jafnvel lyfjafræðingar sögðust ekki vera alveg 100% vissir um að þeir reiknuðu kostnaðinn rétt af því að kerfið væri flókið, hvað þá að hægt væri að upplýsa sjúklinginn um af hverju hann borgaði 5.736 en ekki 6.800 eða eitthvað slíkt. Hann verður bara að borga það sem honum er sagt. Ég veit ekki hvað mundi gerast ef hann fengi að vita nákvæmlega samkvæmt hvaða reglum allar þessar greiðslur væru. Ég hugsa að það gæti orði ansi mikil rekistefna.

Ég er jákvæður gagnvart þessu frumvarpi og legg til að heilbrigðisnefnd fari vel í gegnum þetta. Það er kannski spurning mín til ráðherra hvort einhver flötur sé á því að víkka frumvarpið út í meðförum nefndarinnar eða jafnvel skipta um kerfi, þ.e. að þetta væri ekki tólf mánaða tímabil heldur eitthvert fljótandi sex eða sjö mánaða tímabil, hvort menn séu opnir fyrir slíkum breytingum eða hvort mönnum þyki það of stórt skref til hliðar.

Á sínum tíma var rætt um að taka tannlækningar inn í. Það er dálítið merkilegt að allt sem gerist í munnholinu er ekki læknisfræði heldur virðist það vera iðnaðarmennska og koma ríkinu ósköp lítið við, en ég held að fyrir foreldra barna sem eru með skemmdar tennur sé það jafnmikið læknisfræðilegt vandamál og brotinn fingur eða eitthvað slíkt. Ég hef aldrei skilið af hverju tannlækningar falla ekki inn í heilbrigðiskerfið og séu borgaður þar eins og annar kostnaður. Það mætti einmitt setja það inn í svona heildarniðurstöðu. En eins og ég sagði er ég jákvæður gagnvart þessu frumvarpi og ég hlakka til að sjá hvað kemur út úr því.