139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

sjúkratryggingar.

784. mál
[16:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þar fór í verra. Ef menn ætla að tekjutengja þetta líka og koma með tekjuskattinn inn í greiðsluþátttökukerfið þá flækja þeir það enn frekar. Spurningin er þá hvert sé hlutverk tekjuskattskerfisins. Það er mjög stigverkandi. Maður með 100 þús. kr. tekjur borgar engan tekjuskatt. Þegar hann hækkar í tekjum borgar hann stighækkandi tekjuskatt, eins og menn þekkja. Er það ekki nóg? Maður hefði haldið það. Á að skattleggja menn sérstaklega fyrir tekjunum líka?

Auðvitað eiga bætur og annað slíkt að vera það góðar að menn geti staðið undir kostnaðinum og þeir hafa gert það hingað til. Menn þurfa að borga þennan kostnað núna og hann er meira að segja mjög ójafn og getur verið mjög hár fyrir einstaklinga. Ég mundi frekar vilja að menn hyrfu frá ákvæðinu um lægri bæturnar endar munar ekki voðalega miklu, það munar 7.500 kr. á lægri mörkunum. Ég get ekki séð að þetta fari mjög illa með menn, að borga 15% af því sem umfram er. Til einföldunar held ég að menn ættu að sleppa þessu félagslega mómenti sem er þarna í reglugerðinni. En það er eitthvað sem hv. heilbrigðisnefnd fer yfir sem og ýmislegt fleira.