139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

sjúkratryggingar.

784. mál
[16:31]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur tjáð skoðanir sínar um þetta og eins og hann sagði fer málið til hv. heilbrigðisnefndar og fær þar umfjöllun. Þá vega menn og meta hvaða hópar eiga að vera á sérkjörum eða í lægri flokknum hvað varðar tekjuviðmiðin.

Ég vil í lok umræðunnar ítreka þakkir mínar til þeirra sem hafa tekið þátt í henni. Ég treysti á að þetta fái vandaðan og góðan framgang í þinginu, þeim til heilla sem þurfa því miður einhverra hluta vegna á verulega mikilli lyfjanotkun að halda. Við þurfum að jafna þann kostnað og tryggja að fólk sé ekki að borga í einstökum tilfellum hundruð þúsunda króna, jafnvel 100–200 þús. kr. og yfir það á ári í lyfjakostnað. Það íþyngir mjög þeim aðilum sem við skömmtum hvað lægst launin og mikilvægt er að úr því verði bætt og kostnaðurinn jafnaður því þessu er ekki hægt að mæta með almennri launahækkun á alla í öllum tilfellum.