139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

opinber innkaup.

189. mál
[18:09]
Horfa

Frsm. viðskn. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort mér gefst tími til að svara öllum spurningum hv. þingmanns í fyrra andsvari en ég mun þá freista þess að reyna að gera það í síðara andsvari.

Hér er um að ræða almenna heimild. Það kom fram við umfjöllun um málið í nefndinni að þó svo að vilji nefndarmanna, a.m.k. sumra, hafi staðið til þess að einskorða heimildina við þennan ákveðna vöruflokk, þ.e. lyf — og það kom glöggt fram í ræðu minni og við umfjöllun í nefndinni að hvatinn að því að ráðist er í þessa heimild er áhugi velferðarráðuneytis og Landspítala til að taka þátt í útboðum erlendis t.d. á sérstaklega sjúkrahúsmerktum lyfjum — að þá er ekki heimilt að einskorða heimildina eða fara inn í innkaupalögin og láta heimildina rammast einungis við ákveðinn vöruflokk eða vörutegund. Þess vegna er um að ræða almenna heimild.

Það kom sömuleiðis fram í nefndinni að tvær ástæður eru fyrir því að þörf er á að fara inn í lögin um opinber innkaup og breyta þeim með tvennum hætti. Það er annars vegar ákvæði laganna um málskot til kærunefndar og hins vegar rétt bjóðenda um að þeim er heimilt að vera viðstaddir opnun tilboða.

Það kom fram í nefndinni að Danir eru að íhuga mjög náið samstarf við Norðmenn sömuleiðis um innkaup með svipuðum hætti og við erum að gera, að áhugi sé hjá danska heilbrigðisráðuneytinu fyrir því að vinna með Norðmönnum að innkaupum á svipuðu vöruflokkum og við erum að gera. Umræðan á sér stað á vettvangi Norðurlandasamstarfs til að geta náð fram hagræðingu gagnvart hinum erlendu framleiðsluaðilum lyfjanna en þá eru menn ekki að horfa til sparnaðar í heimalandi.