139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.

686. mál
[18:51]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, lögum nr. 162/2006, með síðari breytingum. Meðflutningsmenn eru hv. þm. Margrét Tryggvadóttir og Birgitta Jónsdóttir. Að okkar mati í Hreyfingunni sem flytjum þetta mál er tímabært að taka með afgerandi hætti á vafaatriðum í núverandi lögum um fjármál stjórnmálasamtaka.

Áttunda bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis ber heitið „Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008“. Í kafla 2.3 segir, með leyfi forseta:

„Eitt augljósasta tæki viðskiptalífsins til að hafa áhrif á stjórnmálamenn eru bein fjárframlög, bæði til stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna.“

Enn fremur segir í niðurlagi kaflans þar sem ályktanir eru dregnar og komið er inn á þá lærdóma sem draga þurfi af fortíðinni, orðrétt, með leyfi forseta:

„Leita þarf leiða til þess að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins.“

Vegna ábendinga Evrópuríkja gegn spillingu, GRECO, var sett á laggirnar nefnd sem endurskoðaði lög um fjármál stjórnmálasamtaka sem sett voru árið 2006, einnig vegna ábendinga GRECO. Það er síðan sérstakt rannsóknarefni hvers vegna sú löggjöf sem samþykkt var árið 2006 hefur leitt af sér stórauknar fjárveitingar til flokkanna úr ríkissjóði eins og Guðmundur Magnússon segir á bls. 144 í bókinni Nýja Ísland – listin að týna sjálfum sér.

Niðurstaðan úr umræddri endurskoðunarvinnu var því lagasetning sem tók gildi í september 2010. Það mál var lagt fram af formönnum allra flokka á þingi utan Hreyfingarinnar sem gagnrýndi að lögin gerðu hvorki ráð fyrir að rofin yrðu óeðlileg tengsl milli viðskipta og stjórnmála né að jafnræðis væri gætt við úthlutun opinberra fjármuna. Stjórnmálasamtök og stjórnmálamenn geta áfram tekið við peningum frá fyrirtækjum. Þá er flokkum og flokksmönnum heimilt að taka við peningum frá einstaklingum án þess að upplýst sé í öllum tilfellum um viðkomandi styrkveitendur. Þessar ráðstafanir eru í andstöðu við markmið laganna sjálfra sem er að draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum, eins og segir í markmiði laganna. Einnig er lögunum ætlað að auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræðið. Að þessu leyti eru lögin í innra ósamræmi sem seint verða talin vönduð lagasetning.

Gagnrýni Hreyfingarinnar á lögin virtist skila sér að einhverju marki í umræðum um málið á Alþingi á sínum tíma ef marka má orð hv. þm. Róberts Marshalls, formanns allsherjarnefndar, þó ekki hafi hann treyst sér til að ganga lengra en raun ber vitni. En hv. þingmaður sagði m.a. orðrétt, með leyfi forseta:

„Virðulegur forseti. Ég get ekki annað en tekið vel í þá fyrirspurn sem til mín er beint í þessum efnum því að eins og hv. þingmanni er kunnugt tel ég hér um að ræða skref í rétta átt og vildi gjarnan að gengið yrði lengra. Hins vegar er það einfaldlega svo að ef maður lætur „pragmatíkina“ ráða — ég leyfi mér að sletta því orði hér í ræðustól Alþingis — er hér á ferðinni frumvarp sem er góð sátt um á milli meiri hluta þings og allra stjórnmálaflokka og því öruggt að þær breytingar sem hér eru kynntar til sögunnar gangi í gegn. Hins vegar hef ég ákveðnar skoðanir í þá áttina hvað varðar nafnleyndargólfið sem hér er sett í 200 þús. kr., hvort það eigi yfir höfuð að vera til staðar, ég mundi gjarnan vilja skoða það. Því sjónarmiði hefur jafnframt verið hreyft að fyrirtækjum eigi ekki að vera heimilt að styrkja stjórnmálaframbjóðendur eða stjórnmálasamtök.“

Í byrjun október 2010 birtust niðurstöður skoðanakönnunar um efnið. Dagana 8.–15. september 2010 kannaði Capacent Gallup afstöðu almennings til styrkja frá fyrirtækjum og einstaklingum til stjórnmálamanna og stjórnmálasamtaka. Í ljós kom að afgerandi meiri hluti eða 68% voru andvíg því að íslenskum stjórnmálamönnum og stjórnmálasamtökum væri heimilt að taka við fjárframlögum frá fyrirtækjum. Þá sögðust 79% þjóðarinnar andvíg því að stjórnmálamönnum og stjórnmálasamtökum væri heimilt að taka við fjárframlögum frá einstaklingum án þess að nafn þess einstaklings sem veitir styrkinn sé gefið upp. Niðurstöður könnunarinnar tala sínu máli. Jafnframt benda þær til þess að yfirgnæfandi meiri hluti almennings styðji hugmyndir Hreyfingarinnar í þessum efnum.

Til að fylgja málinu eftir hafa þingmenn Hreyfingarinnar nú lagt fram þetta lagafrumvarp. Helstu breytingar frumvarpsins eru að banna framlög lögaðila til stjórnmálasamtaka og takmarka fjárframlög einstaklinga við 200 þús. kr., þó þannig að framlög hærri en 20 þús. kr. skulu gerð opinber innan þriggja daga frá því að þau voru móttekin. Þá er lagt til að horfið verði frá því fyrirkomulagi að stærri stjórnmálasamtök fái hærri fjárframlög frá hinu opinbera en þau stjórnmálasamtök sem eru minni. Fleiri aðilar í samfélaginu hafa vakið máls á fjármálum stjórnmálasamtaka. Til að mynda hefur lýðræðisfélagið Alda sent stjórnlagaráði erindi sem fjallar m.a. um efnið.

Frú forseti. Í greinargerðinni með frumvarpi þessu segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, nr. 162/2006. Þær breytingar sem lagðar eru til eru í samræmi við markmið laganna um að draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum, sem og að auka traust á stjórnmálum og efla lýðræði.

Helstu breytingar frumvarpsins eru þær að banna framlög lögaðila til stjórnmálasamtaka og að takmarka fjárframlög einstaklinga við 200 þús. kr., þó þannig að framlög hærri en 20 þús. kr. skuli gera opinber innan þriggja daga frá því að þau voru móttekin.

Þá er lagt til að horfið verði frá því fyrirkomulagi að stærri stjórnmálasamtök fái hærri fjárframlög en þau sem eru minni. Lagt er til að stjórnmálasamtök fái fjárframlag sem þarf til að reka skrifstofu og fundaraðstöðu í hóflegri stærð í hverju kjördæmi. Stjórnmálasamtök fái einnig framlög til að greiða framkvæmdastjóra laun sem og starfsmanni í hálfu starfi í hverju kjördæmi fyrir sig. Þá verði fjárframlög til þingflokka þau sömu fyrir alla flokka.

Hvað varðar framlög vegna kosninga er í frumvarpinu gert ráð fyrir jöfnu framlagi til stjórnmálasamtaka sem bjóða fram á landsvísu en bjóði stjórnmálasamtök ekki fram í öllum kjördæmum fái þau fjárframlag í samræmi við fjölda frambjóðenda þeirra sem hlutfallstölu af 126.“

Frú forseti. Í stjórnskipan Íslands er hvergi gert ráð fyrir að svokallaðir lögaðilar eða fyrirtæki eigi aðkomu að lýðræðislegri ákvarðanatöku í kosningum. Það er í hæsta máta óeðlilegt að lögaðilar geti í rauninni keypt sér stuðning með því að leggja fé til stjórnmálamanna og stjórnmálasamtaka. Nýleg umræða um meinta mútuþægni eins alþingismanns og þá stöðu að hann hefur nú í huga að höfða meiðyrðamál á hendur öðrum þingmanni vegna ummæla hans um meintar mútur dregur skýrt í ljós þann vanda sem Alþingi stóð frammi fyrir á sínum tíma þegar fjármál til stjórnmálaflokka voru miklu lausari í reipum. Sá vandi er enn til staðar, sá vandi að stjórnmálamenn og stjórnmálasamtök geti tekið við framlögum frá lögaðilum og að framlög geti líka verið nafnlaus vekur efasemdir um nægilegt gagnsæi sé viðhaft í íslenskum stjórnmálum.

Þetta frumvarp er mikilvæg breyting á lögum um fjármögnun stjórnmálasamtaka. Frumvarpið eykur gagnsæi og leiðir til opnara bókhalds. Það sker á tengsl viðskiptalífs og stjórnmála og það er einmitt eitt af þeim meginatriðum sem rannsóknarnefnd Alþingis telur í skýrslu sinni mjög mikilvægt að koma skikki á. Frumvarpið bannar framlög frá lögaðilum og takmarkar framlög frá einstaklingum við 200 þús. kr. Öll framlög umfram 20 þús. kr. verður að gera opinber. Framlög frá ríkinu skiptast jafnt á þau stjórnmálasamtök sem eiga menn á þingi og þau sem ná ákveðinni lágmarksstöðu eða 2,5% af atkvæðafjölda í kosningum fá helming framlagsins.

Mikilvægt er líka að hafa í huga að þessar breytingar munu efla frekar traust á stjórnmálum, stjórnmálamönnum og Alþingi. Í rauninni er ekki boðlegt að uppi skuli vera grunur um, bæði meðal þingmanna og meðal almennings, að þingmenn hafi þegið mútur. Íslensk stjórnmál verða að komast út úr þessu umhverfi ef einhvern tíma á að takast að byggja aftur upp traust milli þings og þjóðar.

Að okkar mati þarf ekki svona mikið fé í stjórnmál, í áróður og í auglýsingar og það kemur t.d. skýrt fram í nágrannalöndum okkar. Stór hluti af fé til stjórnmálaflokka fyrir kosningar fer t.d. í auglýsingar í ljósvakamiðlum en í flestöllum nágrannalöndum eru slíkar auglýsingar einfaldlega bannaðar.

Það hefur lengi legið fyrir og verið uppi á borðinu og sérstaklega kemur það skýrt fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að þingmenn hafa tekið við fé og sumir hafa tekið við stórfé. Það veltir upp atriðum sem óþægilegt er að tala um og sem óþægilegt er að horfa á og það hefur búið til umhverfi vantrausts. Við verðum með einhverjum hætti að bæta úr þessu og reyna að koma okkur inn í umhverfið þar sem við getum með sanni sagt að almenningi sé óhætt að treysta því að þingmenn og stjórnmálaflokkar séu ekki á mála hjá einhverjum aðilum sem ekki er vitað um hverjir eru. Tengsl ráðherra, þingmanna og stjórnmálamanna við viðskiptalífið þurfa að vera uppi á borðum með miklu skýrari reglum en hingað til. Frumvarpið sem við leggjum fram mun svo sannarlega leiða til breytinga á þeim vettvangi og verða til mikils batnaðar.