139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

störf þingsins.

[14:10]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þau tvö frumvörp sem er hér rætt um sem varða breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, annað frumvarpið um grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og hitt um breytingar á núverandi lögum, koma á dagskrá þingsins innan skamms. Það er búið að afgreiða þau út úr þingflokkunum og þau eru komin í sitt hefðbundna ferli á þingi og koma vonandi á dagskrá sem fyrst. (ÍR: Í þessari viku?) Í þessari viku vona ég að að minnsta kosti annað frumvarpið geti komist á dagskrá.

Ég vil bara lýsa því yfir að ég er mjög ánægð með þau miklu tímamót í lífi þjóðarinnar að loksins sé verið að gera breytingar á því fiskveiðistjórnarkerfi sem hefur gilt hér mjög lengi og þjóðin hefur kallað eftir breytingum á árum saman vegna þess að það hefur falið í sér mikið óréttlæti og byggðaröskun. Það hefur heldur ekki mætt mannréttindaáliti Sameinuðu þjóðanna og við erum að gera þær breytingar að treysta auðlindina sem er sameign þjóðarinnar og að arður af nýtingu hennar renni til þjóðarinnar svo ég vona að allir þingmenn gleðjist, taki jákvætt í málin og fjalli um bæði frumvörpin með uppbyggilegum hætti. (Gripið fram í.)