139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs.

[15:16]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Á 122. og 123. löggjafarþingi lagði Hjörleifur Guttormsson til þingsályktunartillögu þess efnis að Alþingi fæli þáverandi umhverfisráðherra að huga að undirbúningi að stofnun fjögurra þjóðgarða á miðhálendi Íslands sem hefði innan sinna marka helstu jökla á aðliggjandi landsvæði. Í framhaldinu samþykkti svo umhverfisnefnd Alþingis áskorun til umhverfisráðherra um að huga að einum þætti þessarar tillögu, þ.e. stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Öll höfum við fagnað mikið þeirri stofnun. Hún var mikið fagnaðarefni fyrir fólk úr öllum flokkum á hinu háa Alþingi og þjóðina alla.

Markmið með stofnun náttúruverndarsvæða svo sem Vatnajökulsþjóðgarðs er mjög skýrt. Það er að vernda landslag, lífríki, jarðmyndanir og menningarminjar eins og 2. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð gerir grein fyrir. Jafnframt er stefnt að því að gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru svæðisins. Með öðrum orðum verður að vera tryggt að ekki sé gengið á náttúruna, annars glatar svæðið verndargildi sínu.

Náttúruvernd er leiðarljósið og hin undirliggjandi grunnhugsun í öllum ákvörðunum sem varða þjóðgarðinn. Að sjálfsögðu er gert ráð fyrir að fólk njóti náttúrunnar en að svo miklu leyti og á þann hátt sem það skili henni óspilltri til yndisauka fyrir ókomnar kynslóðir. Það er hugsunin með þjóðgörðum.

Hvað varðar samgönguþætti Vatnajökulsþjóðgarðs sérstaklega liggur fyrir að ráðherra hefur ekki heimild til að draga til baka það sem hv. þingmenn virðast að ýja að. Vald ráðherra í þessum efnum er mjög takmarkað. Hæstv. ráðherra Svandís Svavarsdóttir hefur hins vegar stuðlað að sátt og frekara samráði með því að mælast til þess (Forseti hringir.) að samgönguáætlun sé rædd frekar.

Ég ítreka í lok máls míns enn og aftur: Hin undirliggjandi (Forseti hringir.) grunnhugsun sem gengur fyrir í þjóðgarði eins og Vatnajökulsþjóðgarði er náttúruvernd.