139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs.

[15:18]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að ræða hér málefni Vatnajökulsþjóðgarðs sem er gríðarlega stórt málefni, sérstaklega fyrir byggðir á Norðurlandi, Austurlandi og Suðausturlandi. Við erum að tala um stærsta þjóðgarð í Evrópu og það er eðlilegt að við ræðum um það hvernig við ætlum að vernda hann og umfram allt líka hvernig við ætlum að nýta hann.

Mig langar að taka undir með hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni um að skoða hvort við eigum að skipta þjóðgarðinum upp í verndarsvæði með mismunandi áherslum hvað varðar verndun og nýtingu eftir eðli viðkomandi svæða, enda eru þau mjög ólík vegna stærðar þjóðgarðsins.

Ég harma það sem virðist vera útbreidd skoðun margra hagsmunaaðila, að nægjanlegt samráð skuli ekki hafa verið viðhaft við innleiðingu þessarar áætlunar. Við getum verið sammála um að vera ósammála um marga hluti, en þegar einstaklingar og félagasamtök fá það á tilfinninguna að á þau sé lítt eða ekkert hlustað er það ekki í takt við þá umræðuhefð í íslenskum stjórnmálum sem við hefðum viljað tíðka frá hruni.

Ég vil líka minna á að það er ekki nóg að setja niður þjóðgarða vítt og breitt um landið. Að baki liggja falleg orð og fallegar hugsanir en við þurfum að tryggja að fjármunir renni til þessarar mikilvægu starfsemi. Við þurfum að tryggja að vernda náttúruperlurnar innan þessara þjóðgarða. Það þýðir ekkert að setja á fót einhverja þjóðgarða og láta síðan ekkert fylgja með eða mjög takmarkaða fjármuni.

Ég fagna umræðunni. Ég tel að við þurfum að halda áfram að ræða um verndun og nýtingu á þessum mikilvægu landsvæðum okkar landsmanna. Þessi umræða er af hinu (Forseti hringir.) góða. Ég vil minna á það að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur spurt ítrekað um þessi mál. Ég tel að við eigum að halda þessari umræðu á vettvangi þingsins áfram.