139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

almannatryggingar.

797. mál
[15:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur fyrir ræðu þar sem hún útskýrði þetta frumvarp og markmið þess. Ég og fleiri erum sammála því að hækka þurfi bætur í velferðarkerfinu í samræmi við launahækkanir á launamarkaði þannig að ekki verði misgengi á hlutföllum þar á milli. Hins vegar hef ég efasemdir um að gefa svona opinn tékka og ég vil fá að sjá hvernig menn ætla að fara að því að hækka þessar bætur.

Á stuttum fundi í hv. félags- og tryggingamálanefnd sem haldinn var á mánudaginn rétt fyrir kl. þrjú, við höfðum reyndar rætt það um morguninn, var spurst fyrir um hvort fyrir lægi hvernig menn ætluðu að leysa þetta. Nú eru að koma mánaðamót og nokkuð síðan kjarasamningar voru samþykktir og ekki seinna vænna en fara að teikna upp hvernig menn ætla að leysa þetta og halda þessu hlutfalli á milli vinnumarkaðarins og bótakerfisins.

Ég vil spyrja hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur hvort hún hafi nánari fréttir af stjórnsýslunni varðandi þetta og hvort búið sé að teikna upp hvernig menn ætla að fara að þessu. Ég sagði á fundinum að þetta yrði að gerast í hvelli og sá hvellur er búinn að standa í tvo daga. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort eitthvað liggi fyrir um hvernig eigi að leysa þetta og alveg sérstaklega hvað það muni kosta.

Ég get ekki skrifað upp á blankó tékka vegna þess að ég ber svo mikla virðingu fyrir stjórnarskránni. Þar segir að allar skuldbindingar eigi að liggja fyrir í fjárlögum eða fjáraukalögum. Ég hygg að þegar fyrir liggur hvað þetta kostar muni ég flytja tillögu að fjáraukalögum um einmitt þá upphæð. Ég held að menn ættu að temja sér að koma með tölur og horfast í augu við kostnað sem verður hjá ríkinu.